Jólakaffið sló í gegn
Fjölmennt var í glæsilegu jólakaffi Vinnslustöðvarinnar í Höllinni. Alls mættu 280 starfsmenn og fjölskyldur þeirra í þennan hefðbundna og notalega mannfagnað sem ár hvert minnir á að sjálf jólahátíðin er rétt handan horns.
Í ár sá kvenfélagið Líkn um veitingarnar. Borð svignuðu undan kræsingum sem Líknarkonur göldruðu fram, líkt og sjá má á meðfylgjandi myndum frá Adda í London.
Sæþór og Kristín fluttu jólatónlist, Trölli og jólasveinn litu inn og létu ljós sín skína, krökkum til ómældrar ánægju.
Hefð er fyrir því að kalla upp á svið starfsfólk sem átti stórafmæli á árinu og sömuleiðis þá sem luku störfum vegna aldurs. Í þetta sinn voru 25 starfsmenn heiðraðir og leystir út með armbandsúrum og blómvöndum af þessum tilefnum.