Jakob Möller segir takk og bless eftir 52 ár í VSV og Fiskiðjunni
„Ég ákvað í vetur að láta staðar numið núna í sumar og stend við það. Nú er komið að þeim tímamótum og ég ætla að byrja á því að taka mér gott frí. Föst vinna verður að baki en ég útiloka ekki að láta sjá mig hér aftur tímabundið í vinnugalla. Ef Vinnslustöðina sárvantar mann til að hlaupa í skarðið í loðnu og makríl á næsta ári þá mæti ég. Auðvitað! Enda er alltaf gaman á vertíð.“
Jakob Möller er Hafnfirðingur að uppruna. Hann kom hingað til Eyja fyrst sem peyi að sumarlagi 10 ára gamall og flutti svo alveg með móður sinni árið 1969, 16 ára gamall. Þá varð hann fljótlega sumarstarfsmaður í Vinnslustöðinni.
Eftir gos, 1974, varð Jakob fastráðinn starfsmaður Vinnustöðvarinnar og hefur unnið þar allar götur síðan þá ef frá er skilinn skammur tími í Fiskiðjunni. Þetta eru því orðin liðlega 52 ár – heill starfsaldur – og mestallur tíminn í sama fyrirtækinu, Vinnslustöðinni!
„Ég hef unnið í öllum deildum Vinnslustöðvarinnar í landi og verið þar verkstjóri. Laust fyrir aldamótin tók ég við starfi móttökustjóra og bætti síðar við mig verkstjórn í saltfiskvinnslunni. Þegar skipaafgreiðsla var stofnuð á vegum Hafnareyrar, dótturfélags VSV, varð ég verkstjóri þar en áfram á launaskrá hjá Vinnslustöðinni.
Vinnudagarnir eru alltaf langir og oftar en ekki hef ég unnið líka um helgar. Enginn endist þannig áratugum saman nema hafa gaman af því sem hann gerir og að vera á vinnustað þar sem viðkomandi líður vel. Hvoru tveggja á við mig og hvers vegna hefði ég þá átt að flytja mig um set á vinnumarkaði?“
Þjóðhátíð um helgina? Nei!
Þegar nú Jakob vaknar og fer á kreik að morgni sunnudagsins 31. júlí 2022 hlýtur tilfinningin að verða sérstök því þá rennur upp síðasti vinnudagurinn hans.
– Þú verður sem sagt fjarri góðu gamni í Herjólfsdal um helgina. Ætlarðu ekki að mæta á þjóðhátíð?
„Nei! Vinnslustöðin heldur áfram að veiða og vinna makríl hvað svo sem þjóðhátíð líður og síðasta vaktin mín er á sunnudaginn. Ég skila mínu þá eins og hingað til. Síðan kveð ég bara og held heim á leið.“
– Svo vill til að einmitt á sunnudaginn kemur stíga rokkararnir í Rolling Stones á svið í Stokkhólmi, allir í framlínunni komnir langt fram á efri ár. Jaggerinn varð 79 ára á þriðjudaginn var. Hann er tíu árum eldri en þú og hamast enn ...
„Hann eldist vel, karlinn, en hefur tæplega þurft að púla mikið líkamlega um dagana. Vaktirnar mínar voru yfirleitt frá því klukkan sex á morgnana til fimm síðdegis en ég lét það nánast aldrei duga og bætti jafnvel við nokkrum klukkutímum.
Í janúar 2023 verð ég sjötugur og hefði getað unnið hér lengur en ákvað sjálfur að segja stopp. Ég var alla vega ekki rekinn, svo mikið er víst!
Jagger má hamast á sviðinu áfram mín vegna og það fram á níræðisaldurinn en ég ætla að tóna niður tilveruna.“
Gegnheill Man United-stuðningsmaður
– Er Gaflarataug fyrirfinnanleg í þér eftir að hafa búið í Vestmannaeyjum frá unglingsaldri?
„Já, já. Mér þykir vænt um Hafnarfjörð en alveg sérstaklega um Knattspyrnufélagið Hauka, félagið mitt frá fyrri tíð. ÍBV er samt alltaf númer eitt, að sjálfsögðu.
Svo vil ég endilega koma Manchester United að líka. Ég er gegnheill United-maður og horfi á alla leiki liðsins. Gengi liðsins hefur vissulega verið upp og ofan undanfarin ár en nú horfi ég til bjartari tíma með nýja hollenska knattspyrnustjórann Erik ten Hag í fararbroddi. Ég hef tröllatrú á honum. Erik er fyrsti stjórinn eftir að Alex Ferguson hætti sem ég treysti og trúi að muni sveifa Manchester United-liðið almennilega í gang og hefja nýtt gullaldarskeið þess.“
– Þú hefur vasast nokkuð í pólitík og varst um skeið formaður Alþýðubandalagsfélags Vestmannaeyja. Hvað varð um þig pólitískt þegar flokkurinn var lagður niður, ertu vinstri-grænn?
„Alþýðubandalagið í Vestmannaeyjum var aldrei lagt niður, það er nú heila málið! Við höldum hópinn nokkrir félagar og köllum okkur Alþýðubandalag. Þetta er eina almennilega stjórnmálaaflið í Vestmannaeyjum en hefur ekki hátt. Við erum til dæmis hlutlausir gagnvart bæjarpólitíkinni í Vestmannaeyjum.“
Dyggir fjáröflunarmenn fyrir Getspá/Getraunir
– Það lifir nú enginn á Alþýðubandalaginu og Manchester United einu saman eftir að starfsferlinum lýkur. Meira hlýtur til að koma.
„Þá skal ég nefna Nei-hópinn okkar félaga sem höfum hist í aldarfjórðung til að tippa á úrslit fótboltaleikja hjá Getspá/Getraunum. Það er fastur og ómissandi liður í tilverunni.“
– Eruð þið getspakir og kannski orðnir milljónar með því að tippa?
„Nei. Þá sögu skal segja eins og hún er. Við höfum ekki unnið nokkurn skapaðan hlut sem tekur að nefna öll þessi ár. Starfseminni fylgir hins vegar ánægja og vissulega útgjöld en þau eru fyllilega þess virði.
Getspá/Getraunir ættu reyndar að heiðra okkur sérstaklega fyrir að vera svona staðfastur og ábyggilegur styrktar- og fjáröflunarhópur fyrir getraunastarfsemina í landinu!“
– Jakob Möller kveður en ekki er þar með sagt að Vinnslustöðin sitji eftir Möllerslaus eða hvað?
„Aldeilis ekki. Ég á tvö börn sem starfa hér og eru nánast uppalin í Vinnslustöðinni. Marta Möller er verkstjóri í botnfiskvinnslunni og Pálmar Möller starfar við löndun á vegum Hafnareyrar. Þau halda ættarmerkinu áfram hátt á lofti.“
Bjargvætturinn Binni
– Ertu lukkulegur með starfsferilinn þegar honum lýkur?
„Já, það er ég svo sannarlega. Ég kveð Vinnslustöðina afar sáttur og mjög ánægður með fyrirtækið, þróun þess og stöðu. Stjórnendurnir eru hæfileikaríkt fólk og Vinnslustöðin á bara eftir að braggast og eflast enn frekar. Siglingin getur ekki orðið annað en farsæl hér eftir sem hingað til með Binna framkvæmdastjóra í brúnni.
Ég segi það satt, og vil að þú skrifir eftir mér, að það var mikið lán fyrir Vestmannaeyjar að hafa fengið Sigurgeir B. Kristgeirsson – Binna hingað á sínum tíma. Ég hef oft leitt að því hugann hvar Vinnslustöðin væri stödd ef svo eldklár og duglegur maður hefði ekki tekið við stjórnartaumum þegar fyrirtækið lá í raun á hliðinni um aldamótin. Með honum starfaði Stefán Friðriksson sem aðstoðarframkvæmdastjóri fyrstu árin. Svo fór hann til Ísfélagsins og nýir stjórnendur voru ráðnir.
Vinnslustöðin nýtur þess að hafa gott starfsfólk og öflugt stjórnendateymi. Hún er flott og vel rekið fyrirtæki sem ég hef mikla trú á að verði enn styrkari stoð byggðarlagsins um ókomin ár.
Ég þakka kærlega fyrir mig og óska Vinnslustöðinni alls góðs og velfarnaðar.“
Jakobi var haldið kveðjusamsæti í matsal Vinnslustöðvarinnar í morgun (fimmtudag). Framkvæmdastjórinn leysti hann út með gjöfum í fljótandi og föstu formi og í gestahópnum voru líka fyrrverandi samstarfsmenn Jakobs í Vinnslustöðinni. Á myndum Lilju B. Arngrímsdóttur hér fyrir neðan má til að mynda kenna Stefán Friðriksson og Viðar Elíasson.