Fara á efnissvæði
World Map Background Image
Litlu Jol Adal Lagf Til baka

9.55°C

ESE

11.32 m/s

Áhöfnin á Þórunni Sveinsdóttur var södd og sæl eftir jólahlaðborðið sem Sigmundur Rúnar Rafnson afleysingakokkur hristi fram úr erminni um helgina. Skipið kom í land í morgun.

„Hvort það sé hefð fyrir því að halda jólahlaðborð þá er alltaf eitthvað jólalegt í matinn fyrir jólin en ekkert eiginlegt jólahlaðborð. Svo er mikið af jólaskrauti sem er í höndunum á Kristjáni Gunnarssyni (jóla drengurinn) sem skreytir af mikilli fágun.” segir Sigmundur Rúnar spurður um hvort það sé löng hefð fyrir slíkum hlaðborðum um borð í Þórunni.

„Það sem boðið var upp á var hangikjöt, þrjár tegundir af síld og rúgbrauð og brauðterta. Í eftirrétt var frönsk súkkulaðiterta með jarðarberjum, bláberjum og rjóma, lagterta, súkkulaði smákökur, sörur og brauðterta.”

„Í jólaskapi að græja sörur ”

Hann tekur það sérstaklega fram að þetta hafi verið hugmynd sem kviknaði hjá skipstjóranum í túrnum, Andra Þór Gylfasyni eftir að þeir lögðu af stað í túrinn. „Við gerðum gott úr því sem var hægt að græja.”

En hvernig var fiskeríið?

Fiskerí var allt í lagi. Tæp 500 kör. Við byrjuðum fyrir sunnan Eyjar fórum svo vestur. Á Skötuhryggnum. Unnum okkur vestur af Tánni og áfram vestur á Dohrnbanka. Vorum þar að berjast við ís, eina sköfu í Nætursölunni og restina af túrnum við Blönku. 

Er mannskapurinn kominn í jólagírinn?

Áhöfnin var í fínasta jólaskapi að græja sörur, segir Sigmundur og bætir við að hann sé bara í afleysingum sem kokkur sem hann segir geggjað. „Þess á milli er ég á dekki, en Stefán Ólafsson er kokkur um borð.”