Hertar aðgerðir VSV vegna veirufaraldursins
Framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar boðar í innanhússtilkynningu mjög hertar aðgerðir í fyrirtækinu vegna veirufaraldursins. Þess verður freistað að verja starfsfólk og starfsemi svo kostur er gagnvart smiti og tilheyrandi áhrifum faraldursins.
12. mars 2020
Kæru starfsmenn,
Eðlilegt er að fyrirtækið geri enn ríkari kröfur til sín og starfsmanna sinna nú þegar lýst hefur verið yfir neyðarstigi almannavarna í landinu vegna heimsfaraldurs Covid 19 veirunnar. Því hefur verið ákveðið að grípa til aðgerða til að draga sem mest úr líkum á því að starfsmenn smitist eða jafnvel að heilu starfsstöðvarnar verði settar í sóttkví.
Mikilvægt er að sem minnst röskun verði á starfsemi fyrirtækisins. Rétt er að hafa í huga að ástandið er síbreytilegt og því er áríðandi að fylgjast vel með og munum við endurmeta og breyta áherslum okkar eftir þörfum.
Aðgerðir Vinnslustöðvarinnar felast meðal annars í að deildum starfsmanna verður skipt upp eins og kostur er.
Einnig verður starfsmönnum í landvinnslu og Hafnareyri skipt upp þannig að aðskilnaði verði haldið eins mikið og kostur er.
- Þessi ráðstöfun tekur gildi eigi síðar en á mánudaginn kemur, 16. mars.
Við leggjum áherslu á að fækka fundum á starfsstöðvum og notast verður við fjarfundarbúnað þegar það er mögulegt.
Jafnframt hefur þegar verið dregið úr ferðalögum starfsmanna vegna vinnu nema mjög brýna nauðsyn beri til.
Á meðan þetta ástand varir beinum við því til gesta að koma ekki á starfsstöðvar Vinnslustöðvarinnar og Hafnareyrar, um borð í skip eða á vinnusvæði nema brýna nauðsyn beri til.
Þeim tilmælum hefur verið beint til starfsmanna að gæta sérstaklega vel að hreinlæti, meðal annars með reglulegum handþvotti og notkun sótthreinsivökva.
Vinnslustöðin beinir því eindregið til starfsfólks að fylgja tilmælum og leiðbeiningum sóttvarnalæknis, landlæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra sem reglulega miðla upplýsingum sem mikilvægt er að kynna sér.
Með kveðju,
Binni