Fara á efnissvæði
World Map Background Image
Image (3) Til baka

9.55°C

ESE

11.32 m/s

Ég geng í land úr síðustu veiðiferðinni og kveð áhöfnina, Ísleif VE og Vinnslustöðina sáttur við guð og menn,“ segir Helgi Geir Valdimarsson, sem lauk tæplega 18 ára starfsferli sínum hjá Vinnslustöðinni í dag.

Yfirmenn fyrirtækisins, Sigurgeir B. Kristgeirsson og Sindri Viðarsson, tóku á móti áhöfninni með tertum og blómum þegar Ísleifur kom til hafnar, enda heldur betur ástæða til. Karlinn í brúnni verður þar ekki framar Helgi Geir Valdimarsson og á föstudaginn kemur, 21. september, fagnar kappinn sjötugsafmæli. Þetta verður því vika samfellds fagnaðar í tilefni mikilla tímamóta í lífi og starfi.

Helgi Geir hefur verið til sjós allan starfsferil sinn. Hann er Norðfirðingur að uppruna og var frá 1967 á skipum Síldarvinnslunnar, síðast á rækjutogara sem fyrirtækið seldi til Skagastrandar og þá blasti við honum veruleg óvissa um hvað við tæki. Hann fór þá að líta í kringum sig eftir vinnu og þá komu Vestmannaeyjar inn í myndina.

Ég sótti um starf hjá Vinnslustöðinni og fékk það. Vinnan í Eyjum jafnaðist á við hvalreka í þeirri stöðu sem ég var þá Ég byrjaði ferilinn sem skipstjóri á KAP II.  Síðan var ég á Guðjóni VE, svo Sighvati Bjarnasyni VE, Ísleifi eldri, Sighvati á nýjan leik og loks á Ísleifi hinum nýrri, áður Ingunni AK.

Mér hefur liðið vel hjá Vinnslustöðinni og alltaf verið með afskaplega góðan mannskap með mér um borð. Það er fyrir öllu.“

Hann segist vera heilsuhraustur og væntir þess að eiga mörg góð ár eftir til að njóta lífsins, meðal annars í húsinu sínu í Neskaupstað.

Sigurgeir B. Kristgeirsson - Binni í Vinnslustöðinni kveður Helga Geir með virktum:

Hann er frábærlega fiskinn, örugglega í hópi mestu fiskimanna í uppsjávarflotanum. Margar sögur ganga af honum í þeim efnum, sumar þykja lygilegar en eru dagsannar. Við þökkum Helga Geir kærlega fyrir frábært starf á vegum Vinnslustöðvarinnar og vonum að honum farnist vel í öllu sem hann tekur sér fyrir hendur eftir að farsælum ferli hans lýkur hér.“

Image
Image (1)
Image (2)