Hæstiréttur sýknar ríkið af kröfum VSV
Hæstiréttur staðfesti í dag sýknudóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Vinnslustöðvarinnar gegn ríkinu vegna sérstaks veiðigjalds sem lagt var á fiskveiðiárið 2012-2013. Vinnslustöðin var jafnframt dæmd til að greiða ríkinu tvær milljónir króna í málskostnað.
Vinnslustöðin ákvað á sínum tíma að una álagningu almenns veiðigjalds á fiskveiðiárinu 2012-2013, tæplega 200 milljónum króna, en stefndi fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisins og krafðist þess að fá sérstaka veiðigjaldið á sama fiskveiðiári endurgreitt, alls um 516 milljónir króna.
Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði ríkið af öllum kröfum VSV í málinu 25. janúar 2016 en felldi niður málskostnað. Vinnslustöðin ákvað að áfrýja til Hæstaréttar og þar var héraðsdómurinn sem sagt staðfestur í dag.
Ragnar H. Hall hæstaréttarlögmaður flutti málið fyrir hönd VSV á báðum dómsstigum. Hann er afar ósáttur við niðurstöðu Hæstaréttar:
„Ekki frekar en endranær þýðir að deila við dómarann þótt menn séu ósáttir við niðurstöðuna. Ég tel að rökstuðningur Hæstaréttar sé ekki sannfærandi í umfjöllun dómsins um að málefnaleg rök hafi legið að baki þeirri reglu að sumir megi draga frá álögðu veiðigjaldi fjármagnskostnað sem þeir hafa haft meðan aðrir mega það ekki. Fjármagnskostnaður vegna kaupa á aflaheimildum er frádráttarbær meðan annar fjármagnskostnaður er það ekki. Hvernig það fær samrýmst jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar er mér hulið.
Í dóminum er sömuleiðis komist að þeirri niðurstöðu að hið sérstaka gjald hafi verið hóflegt og að löggjöfin um það hafi verið byggð á málefnalegum grunni. Ég er sem fyrr ósammála þessu mati Hæstaréttar og röksemdir sem fyrir þessu eru færðar duga ekki til að breyta minni skoðun um það. Vandamálið er þá það að dómurinn ræður en ekki ég!“