Gullberg með fyrsta kolmunnafarm vertíðarinnar
Jón Atli Gunnarsson skipstjóri og áhöfn hans á Gullbergi VE færðu 1.700 tonn af kolmunna að landi snemma í morgun eftir siglingu af miðunum syðst í fiskveiðilögsögu Færeyja. Þetta er fyrsti kolmunnafarmur Vinnslustöðvarinnar á vertíðinni.
Þegar í stað var hafist handa við að landa aflanum og vinna úr honum mjöl og lýsi sem ætla má að verði síðan selt til Noregs til að fóðra eldislax þarlendra, segir Sindri Viðarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Vinnslustöðvarinnar:
„Huginn VE og Sighvatur Bjarnason VE eru á miðunum núna. Vonandi getur Huginn lagt af stað heim fljótlega með um 1.800 tonn en Sighvatur er að hefja veiðar.
Kolmunnakvóti Vinnslustöðvarinnar er 24.000 tonn. Ég geri ráð fyrir að við náum tveimur til þremur túrum á skip og göngum vel á kvótann en klárum hann ekki áður en loðnuvertíð hefst í febrúar. Við trúum því auðvitað og vonum að loðnan gefi sig og veiðar hefjist þá.“
Sindri Viðarsson tók meðfylgjandi myndir í morgunskímunni, þar á meðal þessa af köppunum Pálmari Möller og Þorláki Sigurjónssyni við störf sín um borð í Gullbergi.