Fara á efnissvæði
World Map Background Image
Screenshot 2023 11 28 At 09.35.29 Til baka

9.55°C

ESE

11.32 m/s

Fjölmenni var við Vestmannaeyjahöfn þegar Vinnslustöðin tók formlega við áður norskskráða skipinu Gardar og gaf því nafnið Gullberg VE-292 við einfalda en afar táknræna athöfn. Eirik Birkeland, fráfarandi stýrimaður á Gardar, tók niður norska fánann á skipinu en Jón Atli Gunnarsson, skipstjóri á Gullbergi, dró þann íslenska að húni.

Guðmundur Örn Gunnarsson, stjórnarformaður Vinnslustöðvarinnar, ávarpaði gesti og séra Viðar Stefánsson blessaði síðan skipið.

Að því búnu var almenningi gefinn kostur á að skoða Gullberg og fólk streymdi um borð. Þar á meðal mætti rútufarmur af ferðamönnum frá Kaliforníu með fararstjórann, Sigrúnu Stefánsdóttur, fjölmiðlafræðing og fyrrverandi fréttamann RÚV, í broddi fylkingar. Ameríkanarnir voru himinlifandi glaðir og þakklátir. Sama má segja um aðra alla gesti. Brosin voru mörg og breið og hamingjuóskum rigndi yfir Vinnslustöðina og áhöfn skipsins!

Gullberg er svo gott sem tilbúið til að leggja úr höfn til makrílveiða í Smugunni. Starfsmenn Vinnslustöðvarinnar og ótal margir aðrir hafa lagt nótt við dag til að binda lausa enda og gera og græja. Jón Atli vonast til þess að geta kvatt og lagt úr höfn áður en föstudaginn rennur sitt skeið. Enda eru föstudagar gjarnan til fjár.

Stjórnarformaðurinn Guðmundur Örn fór nokkrum orðum um aðdraganda skipakaupanna og fjárfestingaráform Vinnslustöðvarinnar í ávarpi sínu og sagði meðal annars eftirfarandi:

Seljandi skipsins er útgerðarfélagið Gardar AS, dótturfélag rótgróins fjölskyldufyrirtækis á vesturströnd Noregs sem á sér meira en 120 ára sögu og gerði meðal annars út fimm báta til síldveiða við Ísland, fyrst fyrir nákvæmlega einni öld eða árið 1922.

Nýja skipið okkar á sér líka íslenska fortíð og kannast vel við sig á Íslandsmiðum. Það hefur verið skráð hér tvívegis áður, fyrst sem Margrét EA árið 2006, síðan Beitir NK árið 2010 en nú er það orðið Gullberg VE.

Norsk áhöfn sigldi skipinu hingað til Eyja frá Noregi og um borð í heimsiglingunni voru líka Jón Atli Gunnarsson skipstjóri og Fannar Veigar Einarsson yfirvélstjóri.

Tveir úr norsku áhöfninni eru hér enn og verða áhöfn okkar til halds og trausts í fyrstu veiðiferðinni, stýrimaðurinn Eirik Birkeland og Thorvald Andersen vélstjóri. 

Ég færi norska útgerðarfélaginu Gardar AS þakkir fyrir góð samskipti og farsælt samstarf og þakka auðvitað Eirik og Thorvald alveg sérstaklega.

Þessi skipakaup áttu sér skamman aðdraganda en þegar af stað var farið gengu hlutirnir hratt og snurðulaust fyrir sig.

Gullberg er gríðarlega öflugt skip, smíðað árið 1998 en er mikið endurnýjuð í stóru og smáu, vel búið og glæsilegt í alla staði. Skipið er 71 metri að lengd, 13 metra breitt og lestarrýmið er 2.100 rúmmetrar. Aðalvélin er 8.300 hestöfl og nýleg, sett í skipið árið 2020.

Gullberg VE verður eitt af fjórum uppsjávarskipum í flota Vinnslustöðvarinnar og kaupin á því eru liður í því að endurnýja og efla skipakost félagsins. Vinnslustöðin hefur markað sér stefnu þar að lútandi; stefnu og tilheyrandi fjárfestingaráform sem kynnt voru í stórum dráttum á aðalfundi Vinnslustöðvarinnar í apríl 2022. Þar var meðal annars greint frá áætlun um nýsmíði skipa sem leysa myndu af hólmi þrjú skip félagsins; Brynjólf, Drangavík og Kap. Jafnframt var fjallað um undirbúning þess að reisa nýtt hús fyrir botnfiskvinnslu Vinnslustöðvarinnar á athafnasvæði hennar.

Á undanförnum árum höfum við hægt og bítandi verið að byggja upp félagið, með fjárfestingum í nýjum tækifærum hérlendis sem erlendis og einnig lagt áherslu á uppbyggingu og endurnýjun í starfsemi okkar hér í Eyjum.

Það er svo ánægjulegt að sjá að það hefur svo sannarlega skilað sér,

Gleðilegt er að nafn skipsins Gullberg komi á ný við sögu útgerðar í Vestmannaeyjum. Útgerðarfélagið Ufsaberg gerði á sínum tíma út alls fjögur skip sem öll hétu Gullberg og báru einkennisstafina VE-292. Vinnslustöðin tók við útgerð fjórða Gullbergsins árið 2008 og síðar sameinuðust félögin tvö, Ufsaberg og Vinnslustöðin, undir merkjum Vinnslustöðvarinnar.

Gullberg var selt úr landi árið 2017 og þá var skráningarnúmerið VE-292 lagt inn hjá sýslumanni. Þar var númerið í geymslu til ársins 2021 þegar trillan Adda fékk það. Eigandi Öddu er Ólafur Már Sigmundsson vélstjóri og einn af aðaleigendum Ufsabergs á sínum tíma. Hann gaf Vinnslustöðinni skráningarnúmerið fúslega eftir nú og á miklar þakkir skildar fyrir þá vinsemd sína og ræktarsemi. Hann kvaðst reyndar sjá eftir númerinu en bætti við að þetta nýjasta Gullberg væri glæsilegt skip og annað væri bara ekki við hæfi en að skrá það sem VE-292!

Í framhjáhlaupi má geta þess að barnabarn Ólafs Más, Ólafur Már Harðarson, er vélstjóri á Vinnslustöðvarskipinu Kap VE. Þær eru því víða sögu- og fjölskyldutengingarnar.

Og fleiri tengingar nefni ég til viðbótar hér í lokin.

Svo hafa nú veður skipast í lofti að Jón Atli Gunnarsson, með fjölskyldurætur í Ísleifs-útgerðinni í Vestmannaeyjum, er orðinn skipstjóri á Gullbergi VE. Foreldrar Jóns Atla, Gunnar Jónsson og Selma Jóhannsdóttir, áttu Ísleif ehf. ásamt Leifi Ársælssyni þegar félagið sameinaðist Vinnslustöðinni árið 2003.

Eyjólfur Guðjónsson, núverandi skipstjóri á Ísleifi VE, hefur oftast verið kenndur við Gullberg – enda með fjölskyldurætur í Ufsabergsútgerðinni sem foreldrar tóku þátt í að stofna 1970, Guðjón Pálsson og Elínborg Jónsdóttir.

Þannig skrifar sagan sig sjálf, kafla fyrir kafla, og er sjaldnast fyrirsjáanleg.

Við fögnum merkum áfanga í dag en höfum jafnframt alltaf í heiðri og minnumst með þökkum og virðingu fyrirrennaranna í starfsemi Vinnslustöðvarinnar og baklands hennar allt frá stofnun félagsins árið 1946.

1 Img 0682 Copy
2 Mg 0685 Copy
3 Img 0700 Copy
4 Img 0668 Copy
5 Img 0713 Copy
6 Img 0724 Copy
7 Img 0729 Copy
8 Img 0716 Copy
9 Img 0730 Copy
10 Img 0746
11 Img 0750 Copy
12 Img 0777 Copy