Guli furðuþorskurinn af Drangavík VE á vinsældatoppi mbl.is árið 2020
Frétt á Vinnslustöðvarvefnum um „gulasta fisk íslenska þorskstofnsins“ var birt í framhaldinu í 200 mílum á fréttavefnum mbl.is og reyndist sú mest lesna þar á bæ á öllu árinu 2020!
Áhöfnin á Drangavík VE, VSV-vefurinn og Gunnar Jónsson fiskifræðingur skrá sig þar með sameiginlega í sögubækur ársins 2020 að þessu leyti. Dr. Gunnar fékk á sínum tíma í hendur myndir af heilgula þorskinum og eftir honum var haft á vsv.is:
„Margt skrítið hef ég séð um dagana en þetta er nú eitt magnaðasta helvíti úr sjó sem fyrir augu mín hefur borið um dagana. Þarna virðast Eyjamenn hafa veitt eina gulleintakið í þorskstofninum!“
Furðuþorskafréttir tengdar Drangavík VE voru reyndar tvær í sömu vikunni í því fáeinum dögum eftir að guli þorskurinn varð umræðuefni þjóðarinnar hringinn í kringum landið birtist á VSV-vefnum frétt um annan afar afbrigðilegan þorsk sem Drangavík dró úr sjó á sama stað við Surtsey í næstu veiðiferð.
Gunnar fiskifræðingur Jónsson er ekki beinlínis þekktur fyrir að verða kjaftstopp þótt mikið gangi á en þarna komst hann næst því um dagana en gat samt stunið upp um skjöldótta fiskinn:
„Þarna við Surtsey virðist vera vistheimili fyrir erfðafræðilega afvegaleidda þorska! Sannarlega verðugt rannsóknarefni.“
Gunnar Jónsson, sérgreinalæknir fisksjúkdóma hjá Matvælastofnun, tjáði sig líka um málið:
Ja, hvur skrambinn, þetta gæti verið hálfbróðir! Hér sannast enn og aftur að „sjaldan er ein báran stök“. Þessi vanskapnaður er af sama meiði og hinn. Hér vantar litafrumur í roðið en bara að hluta til. Akkúrat slíkar breytingar sjáum við af og til í bleikjum sem verða þá vel flekkóttar. Niðurstaða rannsókna á þeim leiðir í ljós ákveðinn erfðagalla en svo verða umhverfisaðstæður að vera með sérstökum hætti til að framkalla þennan „galla“.
Síðast en ekki síst varð skipstjóranum á Drangavík, Kjartani Guðmundssyni, að orði:
„Ábyggilega er mun líklegra að fá stærsta lottóvinninginn en að draga furðafiska um borð á sama stað í tveimur veiðiferðum í sömu vikunni. Held ég skili bara lottómiðanum mínum!“
Hér geta menn svo rifjað upp fréttirnar um furðufiskana tvo sem komust á spjöld sögunar árið 2020: