Góðum aflabrögðum fagnað með kökum og kruðeríi
8/04/19
Áhafnir þriggja skipa Vinnslustöðvarinnar fengu um helgina gott með kaffinu um í tilefni af góðum aflabrögðum frá áramótum. Sverrir Haraldsson, sviðsstjóri bolfisksviðs Vinnslustöðvarinnar, mætti um borð með kökur, kruðerí og þakkir frá fyrirtækinu.
Áður hefur hér á þessum vettvangi verið greint frá fádæma góðum afla Breka VE í marsmánuði. Hann er í hópi aflahæstu togara landsins og aflasamsetningin er mun fjölbreyttari en hjá viðmiðunarskipunum.
Önnur botnfiskskip Vinnslustöðvarinnar hafa líka aflað vel á vertíðinni.
- Brynjólfur VE hefur fært yfir 1000 tonn að landi frá áramótum. Hann hóf vertíðina á fiskitrolli en skipti yfir á net um miðjan febrúar.
- Kap II VE hefur aflað yfir 850 tonn frá því í lok janúar. Skipið var frá veiðum vegna mikilla endurbóta í desember og fyrstu vikum nýs árs en hóf veiðar á þorskanetum í lok janúar.
- Drangavík VE er komin með 1300 tonn frá því í janúar; þorsk, ýsu, ufsa, skarkola og fleiri tegundir.
„Áhafnir á skipum félagsins hafa skilað miklum verðmætum á land á fyrsta fjórðungi ársins. Full ástæða var til að halda upp á það með þeim um helgina með kökum og kátínu!“ segir Sverrir Haraldsson.