Góðs viti að sjá smáan humar í fyrsta afla sumarsins
„Humarveiðin fer betur af stað en við þorðum að vona og ánægjulegast er að sjá líka smáan humar í aflanum. Hrun humarstofnsins stafaði af bresti í nýliðun og vonandi boðar þessi smáhumar betri tíð fyrir stofninn. Látum samt vera að draga víðtækar ályktanir af slíkum vísbendingum,“ segir Sverrir Haraldsson, sviðsstjóri botnfisksviðs VSV.
Vinnslustöðvarskipin Drangavík VE og Brynjólfur VE héldu til humarveiða seint í apríl og hafa landað í tvígang. Veiðisvæðin eru hefðbundin í upphafi vertíðar, á Breiðamerkurdýpi og Hornafjarðardýpi. Ef að líkum lætur færist sóknin vestar þegar kemur fram í júní en mest hefur verið veitt á svæðinu við Eldey undanfarin ár.
Humarveiðin er ekki nema svipur hjá sjón miðað við það sem áður gerðist. Útgefið heildaraflamark fyrir landið allt er 143 tonn en þegar mest veiddist af humri var heildaraflinn um 2.250 tonn, á fiskveiðiárinu 2010-2011.
Humarstofninn hrundi án þess að fullnægjandi skýring hafi fengist á því. Smár humar sást ekki og og útgefinn kvóti hefur undanfarin ár verið afar lítill, rétt svo að afla megi upplýsinga um ástand stofnsins með lágmarksveiðum.
Vinnslustöðin ræður yfir tæplega 19% heildarkvóta, innan við 30 tonnum af heilum humri upp úr sjó. Áhafnir Drangavíkur og Brynjólfs freista áfram gæfunnar næstu vikurnar og sæta lagi í lágstreymi því humarinn lætur ekki góma sig í hástreymi.
Sverrir gerir sömuleiðis ráð fyrir að Inga P SH verði gerð á ný út á vegum Vinnslustöðvarinnar til humarveiða í gildrur á Breiðafirði. Tilraunir í þá veru hófust á árinu 2020.
„Inga P er í slipp sem stendur en við stefnum að því að taka upp þráðinn frá því í fyrrahaust þegar gildruveiðarnar á Breiðafirði skiluðu árangri framar vonum. Þær gengu vel og áhugavert er að þreifa sig áfram til að ná góðum tökum á þessum veiðiskap.“
- Frétt um gildruveiðar á Breiðafirði.
- Myndir: VSV/Hreinn Magnússon & Sverrir Haraldsson.