Góðri og gjöfulli makrílvertíð að ljúka
„Vertíðin er á lokaskeiðinu. Við erum að vinna afla úr Gullbergi og Sighvatur Bjarnason var að koma með 400 tonn. Við klárum vinnsluna aðfaranótt eða fyrri hluta föstudags og þar með lýkur góðri makrílvertíð í ár,“ segir Benóný Þórisson, framleiðslustjóri í uppsjávarvinnslu VSV.
Samanlagður makrílkvóti Vinnslustöðvarinnar og Hugins er 19.000 tonn og við blasir nú að tekist hafi að ná öllum þeim afla í hús.
Fyrir verslunarmannahelgi var makríllinn veiddur í íslenskri lögsögu, stór og fínn fiskur. Eftir verslunarmannahelgi hefur hins vegar verið veitt í Smugunni og fiskurinn heilt yfir verið góður.
Vel viðraði á miðunum í sumar og vertíðin í heild telst gjöful og farsæl. Þar er auðvitað fyrst að nefna að veitt var að stórum hluta í íslenskri lögsögu en þrjú undanfarin ár varð að sækja allan afla norður í Síldarsmuguna.
Mikill makríll í íslenskri lögsögu styrkir stöðuna í viðræðum um hlutdeild Íslendinga í þessum sameiginlega fiskistofni fleiri þjóða.
Makrílvertíðin var líka af efnahags- og umhverfislegum ástæðum hagstæðari nú en undanfarin ár. Færri daga þurfti til siglinga til og frá miðum og fleiri dagar nýttust því til sjálfra veiðanna. Olíunotkun var minni og olíukostnaður ár þar með minni en ella.
Þannig var kolefnisspor veiðanna líka minna en undanfarin ár – enn einn jákvæður þáttur málsins og ekki sá veigaminnsti á tímum baráttu gegn loftlagsbreytingum af mannavöldum.