Fara á efnissvæði
World Map Background Image
Logo Background (1) Til baka

9.55°C

ESE

11.32 m/s

Hagnaður Vinnslustöðvarinnar var um 10 milljónir evra eftir skatta á árinu 2015, sem jafngildir 1,4 milljörðum króna, en var 7,2 milljónir evra árið 2014. Þetta kom fram á aðalfundi Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum á miðvikudaginn var, 6. júlí.

Vinnslustöðin verður sjötug milli jóla og nýárs í vetur og fagnar áfanganum á ýmsan hátt þegar nær dregur sjálfu afmælinu. Meira um það síðar.  Á aðalfundinum var hins vegar upplýst að stjórn félagsins hefði í tilefni afmælisins samþykkt að verja 10 milljónum króna til fegrunar og uppgræðslu í Vestmannaeyjum. Þetta er táknræn afmælisgjöf sjálfs afmælisbarnsins til samfélags síns!

Hluthafar Vinnslustöðvarinnar eru um 250 talsins. Í skýrslu stjórnar til aðalfundar kom fram að flestir hluthafanna hafi komið að félaginu um árabil og upplifað bæði áföll í sjávarútveginum og gríðarlega erfiðleika í rekstri fyrirtækisins undir lok aldarinnar sem leið.

„Með útsjónarsemi hefur náðst að byggja félagið markvisst upp og með sameiningum við önnur fyrirtæki hafa fleiri hluthafar bæst í hópinn. Í þessari vegferð hefur viss varkárni verið höfð að leiðarljósi þannig að félagið geti tekist á við þær niðursveiflur sem koma óhjákvæmilega í sjávarútvegi.

Á undanförnum árum höfum við markað stefnu um uppbyggingu félagsins til framtíðar þar sem horft er til endurnýjunar skipakosts og uppbyggingar landvinnslu, breytts sölufyrirkomulags og ýmissar stoðþjónustu, svo fátt eitt sé nefnt.“

Þetta sagði Guðmundur Örn Gunnarsson stjórnarformaður meðal annars í skýrslu stjórnar og nefndi síðan helstu þætti uppbyggingar sem hófst fyrir alvöru árið 2014, fjárfestingar upp á um sjö milljarða króna.

  • Byrjað var að smíða togarann Breka VE í Kína, skipið er væntanlegt til heimahafnar seint á árinu 2016.
  • Keypt voru uppsjávarskipin Ingunn og Faxi af HB Granda og með þeim fylgdi 0,7% aflahlutdeild í loðnu. Skipin komu í stað Ísleifs og Kap og bera nöfn þeirra nú.
  • Þrjú VSV-skip hafa verið seld: Gamli Ísleifur, Jón Vídalín og Stígandi.
  • Á vormánuðum 2016 hófust framkvæmdir við nýtt uppsjávarfrystihús. Það verður búið blástursfrystum í stað plötufrysta. Til mikils er vænst með þeirri breytingu, enda eru kaupendur í Asíu reiðubúnir að greiða hærra verð fyrir sjávarafurðir sem frystar eru með blásturstækni. Afkastagetan verður í fyrstu um 420 tonn á sólarhring.
  • Nýir hráefnisgeymar verða reistir á árinu. 
  • Rými frystigeymslunnar verður fjórfaldað, hún tekur nú 4.000 tonn en fer í nær 16.000 tonn eftir stækkun. Unnið er að lokahönnun byggingarinnar og umhverfis hennar í góðri samvinnu við Vestmannaeyjabæ. Framkvæmdir hefjast þegar nýja uppsjávarhúsið er tilbúið. 
  • Dótturfélagið Hafnareyri var stofnað og sameinuð í því starfsemi Eyjaíss, Skipaafgreiðslu Vestmannaeyja, rekstur frystigeymslunnar og hvers kyns verkleg þjónusta, til að mynda vinna iðnaðarmanna og verkstæða. Hafnareyri sinnir stoðþjónustu við Vinnslustöðina en þjónar jafnframt öðrum viðskiptavinum.

„Ég er sannfærður um að allar þessar fjárfestingar og breytingar muni skila Vinnslustöðinni enn betri afkomu á komandi árum. Sumir kunna að segja að við hefðum átt að gera þetta fyrr, og ég get tekið undir það að vissu leyti, en á undanförnum misserum hefur of mikil orka starfsmanna og stjórnarmanna farið í annað en uppbyggingarmál, svo sem deilumál fyrir dómstólum og fleira,“ sagði Guðmundur Örn stjórnarformaður .