Fara á efnissvæði
World Map Background Image
Image Til baka

9.55°C

ESE

11.32 m/s

Hagnaður VSV-samstæðunnar nam tæplega 12,4 milljónum evra á árinu 2016 en var tæplega 10 milljónir evra árið áður. Þetta kom fram á aðalfundi Vinnslustöðvarinnar hf. í dag.

Rekstur og starfsemi Vinnslustöðvarinnar gekk vel 2016. Afkoman félagsins var sú æstbesta frá upphafi.

Framlegð samstæðunnar (EBITDA)  var 20,4 milljónir evra, nánast hin sama og 2015.

Image

Atkvæðagreiðsla í stjórnarkjöri á aðalfundinum...

Eigið fé jókst um 9% og eiginfjárhlutfall er nú 38%.

Fjárfestingar voru miklar á árinu. Nýtt uppsjávarvinnsluhús var tekið í notkun, nýr togari er í smíðum í Kína og skip voru seld og keypt. Framkvæmdakostnaður var 18,4 milljónir evra, að frádregnu söluverði skipa.

Leiðarljósið er að láta byggðina í Vestmannaeyjum njóta góðs af arðsömum rekstri og fjárfestingum VSV og styrkja þannig stoðir samfélagsins heima fyrir. 

Þrátt fyrir miklar fjárfestingarnar minnkuðu heildarskuldir og skuldbindingar VSV um 3% vegna þess að handbært fé frá fyrri árum var notað til að takast á við nýfjárfestingarnar. Handbært fé dróst að sama skapi saman í reikningum félagsins eða um ríflega 60%.

VSV tók engin langtímalán á árinu en greiddi 12,4 milljón evrur af langtímaskuldum sínum.

Aðalfundurinn samþykkti að greiða hluthöfum 8 milljónir evra í arð, sem svarar til 5% af áætluðu markaðsvirði hlutafjár. Þetta er fjórða árið í röð sem hluthafar VSV ákveða að greiða sér arð upp á 8 milljónir evra. 

Guðmundur Kristjánsson í stjórn

Fjórir stjórnarmenn fimm voru endurkjörnir á aðalfundinum: Einar Þór Sverrisson, Guðmundur Örn Gunnarsson, Íris Róbertsdóttir og Rut Haraldsdóttir. Guðmundur Kristjánsson forstjóri Brims var kjörinn í stjórn í stað Ingvars Eyfjörð.

Í varastjórn voru kjörnir Eyjólfur Guðjónsson og Hjálmar Kristjánsson en þriðji frambjóðandinn til varastjórnar, Guðmunda Bjarnadóttir, fór inn í varastjórn á kynjakvóta og var því endurkjörin líkt og Eyjólfur.