Glæsilegt starfsmannarými VSV í Króki tekið í gagnið
Hluti starfsmannarýmis í nýrri tengibyggingu Vinnslustöðvarinnar, Króki í Hafnargötu, var tekinn í notkun í dag. Starfsmenn í uppsjávarvinnslunni njóta einir herlegheitanna til að byrja með, það er að segja menn á vöktum á loðnuvertíð sem vonandi hefst í lok vikunnar eða í byrjun þeirrar næstu. Þannig verður líka hægt að aðgreina starfsmannahópa í fiskvinnslu VSV í sóttvarnaskyni vegna veirufaraldursins.
Að loðnuvertíð lokinni verður starfsmannarýmið tekið í gagnið til fulls fyrir allt starfsfólk, hvort heldur er í botnfiski, uppsjávarfiski, saltfiski eða á skrifstofu. Breyttum aðbúnaði starfsfólks má í raun líkja við byltingu með matsal fyrir 150 manns á 2. hæð, kynjaskiptum skiptirýmum, snyrtingum, þvottahúsi, eldhúsi og búri og skrifstofurými á 3. hæð
Eydís Ásgeirsdóttir, flokksstjóri og umsjónarmaður á starfsmannasvæði, tók á móti fyrstu sex starfsmönnunum í dag. Hún var á þönum að fylgjast með að allt væri eftir bókinni alls staðar:
„Þú færð ekki að trufla mig lengi, hér er nóg að gera og mörg skrefin. Allt saman flott og fínt en aðalatriðið er að hlutirnir gangi fljótt og vel fyrir sig, flæðið sé gott og starfmenn skili sér glaðir í bragði til starfa á ný úr pásum!
Ég kom ekki nálægt því að kaupa græjur í eldhúsið eða borð og stóla í kaffistofur en ég skipti mér heilmikið af ýmsum búnaði og fyrirkomulagi á starfsmannasvæðinu, smáatriðum sem eru stór í raun og skipta miklu máli. Mér sýnst vel hafa tekist til enda metnaðarmál að gera hlutina almennilega.‘'
Verktakafyrirtækið Eykt steypti upp sjálfa bygginguna sem tengir saman hús Vinnslustöðvarinnar beggja vegna Hafnargötu. Járnsmiðjan Krókur, elsta húsið á lóð Vinnslustöðvarinnar, vék fyrir nýbyggingunni en andi þess lifir áfram með því að tengibyggingin fær heitið Krókur.
Hafnareyri ehf. er aðalverktaki við innréttingar, smíðar og raflagnir. Helstu undirverktakar eru Miðstöðin í pípulagningum, Eyjablikk í loftræstibúnaði, Hanni harði í gólfefnum og Viðar málari í málningarþættinum, segir Trausti Hjaltason, framkvæmdastjóri Hafnareyrar:
„Hanna Stína innanhússarkitekt var ráðgjafi okkar í verkefninu. Það var talsverð tímapressa á okkur að gera rýmið klárt ef loðna skyldi veiðast til þess að hægt væri að aðskilja væntanlegt starfsfólk í loðnuvinnslu annars vegar og starfsmenn í annarri vinnslu hins vegar vegna COVID. Það tókst og nú vantar bara loðnuna!
Við væntum þess að fyrsti farmurinn berist hingað af miðunum einhvern næstu daga. Spenna ríkir í Eyjum af því tilefni, enda höfum við ekki séð loðnu frá því árið 2018.“