Fara á efnissvæði
World Map Background Image
20250316 084251 Til baka

9.55°C

ESE

11.32 m/s

Undanfarnar vikur hefur staðið yfir vorrall Hafrannsóknarstofnunar. Bæði Breki VE og Þórunn Sveinsdóttir VE tóku þátt í rallinu en því lauk hjá Vinnslustöðvar-skipunum um helgina.

Þetta hefur verið gert með sama hætti frá því árið 1985 og þannig fást sambærilegar upplýsingar um stofnstærð, aldurssamsetningu, fæðu, ástand og útbreiðslu helstu nytjastofna við landið. Jafnframt er fylgst með hitastigi sjávar og ýmsu fleiru, svo sem mengandi efnum í sjávarfangi.

Að sögn Magnúsar Ríkarðssonar, skipstjóra á gekk heilt yfir ljómandi vel. 

,,Það reyndar byrjaði með foráttu brælu. Þess vegna var ákveðið að byrja fyrir austan. Venjulega byrjum við á að fara vestur úr. En núna náðum við að skipta og fara norðar og taka stöðvar fyrir Þórunni. Svo var algjör blíða seinni hlutann. Eftir að við komum vestur úr," segir hann.

Maggi A Breka

Magnús Ríkarðsson

Tóku fleiri stöðvar enn áður

,,Við tókum reyndar fleiri stöðvar enn áður. Það kom til vegna seinkunar á komu nýja hafrannsóknaskipsins til landsins," segir Magnús og á þarna við skipið Þórunni Þórðardóttur HF 300.

Magnús segir að þeir hafi bætt við sig 19 stöðvum til viðbótar. Þetta voru þá 173 stöðvar í allt. Við fórum alls 2490 sjómílur. Það er til samanburðar lengri vegalengd en héðan frá Eyjum til Tenerife. Spurður um hvað þetta hafi tekið langan tíma segir hann að þetta hafi verið 17 dagar. 

Magnús tekur fram að það sé einkar gott samstarf við starfsmenn Hafró í þessum rannsóknum. Það voru sjö starfsmenn frá Hafró með og svo erum við 15 í áhöfn. Breki landaði tvívegis í Eyjum í þessu ralli. 

En hvenær á svo að fara aftur á veiðar?  Við erum bara að gera klárt hérna. Reiknum með að fara út á hádegi á morgun, segir Magnús að endingu.

20250316 084251

Myndin er tekin á laugardaginn þegar verið var að landa úr Breka.

Þakka Magga kærlega fyrir skiptin

Óskar Þór Kristjánsson var í brúnni á Þórunni í rallinu. Aðspurður um hvernig hafi gengið segir hann að gengið hafi vel. ,,Það var leiðindaveður þegar við lögðum í hann frá Eyjum. Svo var orðið ágætis veður sunnan við Neskaupstað. Við fórum norður með landinu. Svo var bætt við okkur 19 stöðvum. Við náðum alveg á Kolbeinseyjarhrygginn og fórum svo djúpslóðina til baka." 

Svo var skítaveður úti fyrir Húsavík. ,,Það reyndar reddaðist þar sem við vorum í skjóli. Við lönduðum svo á Neskaupstað á mánudaginn fyrir viku. Svo var farið suður úr á Þórsbankann. Þar var rólegt. Það sem reddaði túrnum var veiðin í Hvalbakshallinu, á Breiðdalsgrunni og í Berufjarðarál. Það var megnið í stöðvunum hans Magga. Við fengum sirka 50 kör á stöðvunum hans. Ég vil bara nota þetta tækifæri og þakka Magga kærlega fyrir skiptin."

Óskar Þór segir að áhöfn og leiðangursfólk hafi staðið sig með mikilli prýði. ,,Þetta er mikil vinna. Það er stutt á milli stöðva. Þetta voru einhver 170 tog sem við tókum." segir hann og bætir við að til standi að halda til veiða annað kvöld.

Oskar Thor A Thorunni

Óskar Þór í brúnni.