Fara á efnissvæði
World Map Background Image
Image Til baka

9.55°C

ESE

11.32 m/s

Norska uppsjávarskipið Osterbris frá Björgvin er væntanlegt til Vestmannaeyja í fyrramálið (að morgni laugardags 18. febrúar) með 450 tonn af loðnu. Þetta er fyrsti loðnufarmurinn sem kemur til Eyja á vertíðinni og fer til vinnslu í nýju uppsjávarvinnsluhúsi VSV.

Vinnslustöðin hefur tekið á móti og unnið bæði makríl og síld í nýja uppsjávarhúsinu frá því það var tekið í gagnið snemmvetrar 2016. Nú er komið að loðnunni og ekki fer hjá því að spenna sé í mannskapnum að hefjast handa, þótt hjólin fari að snúast í skugga verkfalls sjómanna.

Image

„Að sjálfsögðu er ánægulegt og spennandi að prufukeyra nýju uppsjávarvinnsluna við að frysta loðnuhrygnur og nú ætti að ríkja bjartsýni en ekki óvissan ein vegna loðnuveiða okkar,“ segir Sigurgeir B. Kristgeirsson, framkvæmdastjóri VSV.

„Ástandið er óþolandi. Á sama tíma og landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra hefur margfaldað loðnukvótann er allur uppsjávarfloti Vinnslustöðvarinnar í höfn vegna þess að sami ráðherra þráast enn við að fallast á sjálfsagðar kröfur sjómanna um að farið verði skattalega með dagpeningagreiðslur þeirra á sama hátt og dagpeningagreiðslur opinberra starfsmanna og launafólks á almennum markaði.

Á þessu atriði strandar en samningar útvegsmanna og sjómanna liggja annars fyrir, eins og fram hefur komið. Furðulegast er að skattaleg meðferð dagpeninga heyrir undir fjármálaráðherra en ekki sjávarútvegsráðherra! Væri ekki ráð að forsætisráðherra tæki nú af skarið?“