Fyrrverandi Drullusokkur í fyrsta túr sem skipstjóri á Gullbergi VE
„Við erum á heimleið með 1.200 tonn sem náðust í íslenskri lögsögu. Það hefur þurft að hafa talsvert fyrir því að leita að makrílnum og veiða hann á þessari vertíð,“ sagði Sveinn Ásgeirsson yfirstýrimaður á Gullbergi um hádegisbil í dag (1. september).
Hann er í þann veginn að ljúka fyrsta túrnum sem skipstjóri á Gullbergi, leysir af Jón Atla Gunnarsson og er sjálfur á leið í frí þegar heim er komið.
Sveinn var áður stýrimaður á Ísleifi en fór yfir á Gullberg þegar Vinnslustöðin eignaðist skipið í sumar.
„Ég byrjaði hjá Vinnslustöðinni 2006 og þá á Gandí. Stýrimannsferillinn hófst hjá Eyjólfi Guðjónssyni á Gullbergi 2000-2005 og ég byrjaði 2007 á sama skipi sem þá hét Kap eftir að Vinnslustöðin eignaðist það.
Ég var á KAP í hálfan annan áratug eða svo og varð svo 2. stýrimaður á Ísleifi 2015.
Þá hef ég líka leyst oft af á netabátum þegar vantað hefur þar stýrimann eða skipstjóra.
Nú er það sem sagt nýja Gullberg og það er gott skip.“
Sveinn er uppalinn Eyjamaður og segist nú orðið helst sinna fjölskyldu og vinum utan vinnutíma og nefnir ferðalög sem áhugamál. Hann er kvæntur Sigrúnu Öldu Ómarsdóttur. Hún er eigandi Litlu skvísubúðarinnar í Vestmannaeyjum.
Áður söng hann í karlakór og þeysti um á vélhjóli en þeir tímar eru að baki enda vélhjólið selt.
Og þar með er Sveinn heldur ekki Drullusokkur lengur.
Ha??
Já, það er nefnilega svo að mótorhjólaklúbburinn í Vestmannaeyjum heitir Drullusokkarnir. Þegar Geir Jón Þórisson, fyrrverandi lögregluforingi, var tekinn inn í klúbbinn á sínum tíma, sem liðsmaður númer 165, kvaðst hann vera stoltur Drullusokkur. Hann útskýrði í DV-viðtali að félagsheitið væri bæði jákvætt og virðulegt því drullusokkar losuðu stíflur í heimahúsum og í mótorhjólaklúbbnum væru öll mál leyst farsællega – í anda drullusokks.
Margsannað er að fullt mark er takandi á orðum Geirs Jóns enda bæði orðvar maður og sannkristinn.
Stoltur fyrrverandi Drullusokkur er á landleið með markrílbjörg í bú Eyjanna og þjóðarinar.
- Efsta myndin er tekin í allra fyrsta túr Sveins sem skipstjóra á Kap VE árið 2011. Gárungarnir um borð töluðu um að hann væri þarna í mokfiskerísbolnum sem einmitt væri samlita Gullberginu á sínum tíma!
- Næst er mynd af hjónunum Sveini og Sigrúnu Öldu á árshátíð Vinnslustöðvarinnar.
- Aðrar myndir eru af Fésbók Sveins og skýra sig sjálfar ...