Fyrri hálfleik síldveiða lýkur senn
3/10/23
„Við eigum eftir þrjár landanir til að ljúka veiðum á norsk-íslenskri síld í ár. Sú vertíð hefur gengið afar vel og aflaheimildir VSV og Hugins eru samanlagt um 10.000 tonn,“ segir Sindri Viðarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Vinnslustöðvarinnar.
Þegar þessum veiðum lýkur verður hlé þar til síðari síldarhálfleikurinn hefst undir lok októbermánaðar, ef að líkum lætur. Þá snúa menn sér að því að veiða Íslandssíld. Þar ganga Vinnslustöðin og Huginn að aflaheimildum upp á önnur 10.000 tonn.
Kaupendur frosinnar síldar er að finna á rótgrónum mörkuðum, svo sem í Austur-Evrópu. Þar á meðal er hin stríðshrjáða Úkraína.