Framtíðin fékk fræðslu um fiskvinnsluna
Víkin – 5 ára deild kom í heimsókn í Vinnslustöðina á fimmtudaginn síðastliðinn. Ástæða þess að þau óskuðu eftir því að fá að koma í heimsókn er sú að þau eru búin að vera að vinna með hafið sem þema í mars.
Benóný Þórisson og Helena Björk Þorsteinsdóttir tóku á móti börnunum í anddyri aðalinngangs VSV og þar klæddu þau sig í skóhlýfar, hárnet og sloppa. Það þótti þeim agalega spennandi.
Að sögn Helenu Bjarkar lá leið þeirra því næst í sal sem kallast Krókur. ,,Þar fengu þau að sjá þorsk. Hvernig hann lítur út nýveiddur, hvernig hann kemur inn í hús og svo hvernig hann er unninn, saltaður og þess háttar. Gestirnir kvörtuðu einhverjir undan lyktinni sem þeim fannst alls ekkert spes.
Auðvitað var svo skellt í hópmyndatöku. Að myndatöku lokinni var farið aftur upp og voru börnin kvödd með nammipoka sem þau tóku glöð með sér heim. Vel heppnað í alla staði og gaman að sjá hvað þau voru áhugasöm, stillt og prúð," segir Helena.

Börnin virða hér fyrir sér fiskvinnsluna.

Benóný Þórisson framleiðslustjóri sýnir viðstöddum hvernig hlutirnir ganga fyrir sig í vinnslunni.




Að sjálfsögðu var skellt í hópmynd!