Fara á efnissvæði
World Map Background Image
Image (2) Til baka

9.55°C

ESE

11.32 m/s

Gríðarlegar framkvæmdir standa yfir á vegum Vinnslustöðvarinnar um þessar mundir. Segja má að unnið sé á fjórum stöðum samtímis og gert er ráð fyrir verklokum alls staðar í sumar.

Unnið er að

  1. stórfelldri stækkun frystigeymslunnar á Eiði
  2. smíði nýs mjölhúss og viðbyggingu
  3. umfangsmiklum breytingum vegna nýrrar flokkunarstöðvar fyrir uppsjávarfisk
  4. uppsetningu þriðja pökkunarkerfisins í nýja uppsjávarfrystihúsinu og auka þannig afköst þar verulega. Mögulegt er að setja upp fjórða pökkunarkerfið síðar ef svo ber undir.

Verktakafyrirtækið Eykt reisti uppsjávarfrystihúsið, sem tekið var í notkun í október 2016, og er nú með framkvæmdir við mjölhúsið, frystigeymsluna og flokkunarstöðina á sinni könnu.

Image (1)

Mjölgeymslan rís. Mynd: Addi í London.

Eykt er með úrvalsmannskap sem gott er að starfa með. Fyrirtækið gengur skipulega til verka og stendur við tímaáætlanir. 

Verkfræði- og ráðgjafarfyrirtækið Lota kemur mikið við sögu í hönnun mannvirkja og búnaðar og sömuleiðis eru hér menn frá Frystikerfum ehf. Svo má ekki gleyma þætti starfsmanna sjálfrar Vinnslustöðvarinnar.

Við höfum öflugan mannskap í umfangsmiklum verkefnum, gangur mála er góður og samkvæmt áætlun,“

segir Þorsteinn Óli Sigurðsson, tæknifræðingur og eftirlitsmaður með framkvæmdum af hálfu verkkaupans, VSV.

Image (2)

Mjölhúsið tekur á sig mynd - á ljósmynd frá Adda í London.

Staða verkanna er í stórum dráttum:

Mjölgeymslan

Límtrésgrind er risin og komið að því að klæða hana með yleiningum. Síðan verður farið í þakið og gert ráð fyrir að loka húsinu um mánaðarmótin maí/júní.

Í framhaldinu verður lögnum komið fyrir í gólfi og plata steypt.

Verkið allt verður langt komið um mánaðarmótin júní/júlí.

Mjölhúsið er tæplega 2.800 fermetrar að grunnfleti, mænishæð11 metrar og vegghæð 8 metrar

Image (3)

Framkvæmdir við nýja flokkunarstöð fyrir uppsjávarfisk. Mynd: Addi í London.

Frystigeymslan

 Búið er að loka húsinu en út af stendur talsverð vinna við klæðningar og kanta í þaki.

 Innan dyra eru hitalagnir komnar í helming nýbyggingarinnar. Þar hefur svokallað þrifagólf verið steypt og gólfið einangrað.

 Unnið er að því að koma fyrir brautum fyrir kerfi hreyfanlegra rekka frystigeymslunnar, setja niður stærri frystivél í stað þeirrar sem fyrir er og hengja upp viftur í frystirými.

Í júníbyrjun hafa öll gólf að líkindum verið steypt og komið að því að setja upp sjálfa rekkana. Það er mikið fyrirtæki og tekur nokkrar vikur.

Nýju frystirýmin verða tvö og aðskilin. Hið syðra verður fyrr á ferðinni og ætla má að þar frysti um miðjan júlí en í hinu um mánaðarmótin júlí/ágúst.

Frost er aukið í áföngum þar til það er komið niður í 25 gráður á Celsíus. Þetta er gert til að venja sjálft húsið við frostið, því ekki er ráðlegt að skella á það fimbulkuldanum í einni sjónhendingu eða þar um bil.

Flokkunarstöðin

Gamla flokkunarstöð uppsjávarfisks var á einni hæð. Hún var rifin og byggt í staðinn stærra hús á tveimur hæðum. Steypuvinnu að austanverðu er að ljúka og í næstu viku verður byrjað á setja milligólf í húsið og síðan steypa það sem út af stendur.

Í byrjun júní verður gengið í það að stilla upp búnaði, tengja tæki og tól og klæða húsið að innanverðu.

Gert er ráð fyrir að flokkunarstöðin verði tilbúin um mánaðarmótin júní/júlí, klár í að taka við makrílnum og flokka eftir kúnstarinnar reglum áður en leið hans liggur áfram í pökkun og frystingu í nýja uppsjávarhúsinu.