Framkvæmdin á áætlun
Í haust hófust framkvæmdir við nýtt tveggja hæða steinhús á Vinnslustöðvarreitnum. Alls verður nýbyggingin um 5.600 fermetrar, sem í verður saltfiskvinnsla á neðri hæð og innvigtun uppsjávarafla á efri hæð.
„Framkvæmdin er ennþá á áætlun samkvæmt Eyktarmönnum. Við erum að stefna á að geta byrjað að nota neðri hæðina í janúar fyrir saltfiskinn. Í dag er platan á fyrstu hæðinni á lokametrunum í þrónni og í portinu er að verða klárt í að byrja á plötunni á 1 hæð.
Þeir vinda sér svo í að steypa plötuna á annari hæð og hækka veggina að austan um leið og platan á fyrstu hæð verður klár. Þar sem við erum að notast við útveggina í þrónni er uppbyggingin ekki svo seinleg. Mesta vinnan hefur verið að leggja lagnasúpu undir plötuna í grunninn til að uppfylla allar kröfur um hreinsun og frádælingu.“ segir Willum Andersen, tæknilegur rekstrarstjóri Vinnslustöðvarinnar.
Halldór B. Halldórsson gerði sér ferð um framkvæmdasvæðið og gerir hann upp ferð sína í tæplega þriggja mínútna löngu myndbandi sem sjá má hér. Hér að neðan er myndasyrpa Óskars Péturs Friðrikssonar frá framkvæmdunum.







