Fiskiðjuhúsin jöfnuð við jörðu
Fiskiðjuhúsin við Ægisgarð hafa verið brotin niður og fjarlægð. Bæjarmyndin er því mikið breytt á svæðinu og horfnar sýnilegar minjar um merkilegan kafla í atvinnusögu Vestmannaeyja.
Hús Fiskiðjunnar voru tvö, samtengd. Annað þeirra var áfast gamla Ísfélaginu, húsnæði elsta frystihúss Vestmannaeyja.
Myndir: Addi í London.
Byrjað var að rífa Ísfélagshúsið í vetur og síðan lögðu múrbrjótendur til atlögu við Fiskiðjuna fyrir einum mánuði eða svo. Bogadreginn framhlið Ísfélagsins verður látinn standa en annað hreinsað burtu. Fiskiðjan er horfin að öllu leyti eins og til stóð.
Addi í London – Ísleifur Arnar Vignisson hefur fylgst með niðurbroti Fiskiðjunnar frá upphafi til enda og skráð ferlið með ljósmyndum. Hann hafði sérstakar taugar til hússins, enda vinnustaður hans frá árinu 1972 og áfram eftir að Fiskiðjan og Vinnslustöðin sameinuðust undir nafni síðarnefnda félagsins 1. september 1994. Vinnslustöðin frysti fisk í húsinu um hríð eftir sameininguna og þar vann Addi áfram, þá sem starfsmaður VSV.
Fiskiðjuhúsin voru reist um miðja 20. öldina; á sínum tíma meðal stærstu og afkastamestu frystihúsa landsins. Stofnendur og fyrstu eigendur voru Ágúst Matthíasson, Þorsteinn Sigurðsson og Gísli Þorsteinsson frá Laufási.
Hraunstraumur stórskemmdi Fiskiðjuna að sunnanverðu í Heimaeyjargosinu. Hraunið braut niður suðurgaflinn en húsið stóð sig annars furðu vel gagnvart eyðingaröflum náttúrunnar, enda rammlega járnbent eins og kom vel í ljós þegar það var brotið niður nú!
Eftir gosið var húsið lagfært og nýr suðurgafl steyptur. Gísli Þorsteinsson formaði þá listaverk og skilti með nafni fyrirtækisins í steypumótin. Listaverkaveggurinn vakti að sjálfsögðu verðskuldaða athygli alla tíð en heyrir nú sögunni til.
- Meðfylgjandi ljósmyndir Adda í London varðveita minningar um Fiskiðjuna, listaverk Gísla frá Laufási og sögu niðurrifsins.