Fimmtubekkingar spá í loðnu
18/05/20
Nemendur í 5. bekk Grunnskóla Vestmannaeyja rannsökuðu loðnu í bak og fyrir í kennslustund í fyrri viku og fræddust um þennan dyntótta fisk sem síðast veiddist 2018 en hvorki í fyrra né í ár.
Benoný Þórisson, framleiðslustjóri uppsjávarsviðs Vinnslustöðvarinnar, lumaði hins vegar á nokkrum loðnum af 2018-árgerðinni í frysti og færði skólanum með ánægju.
Fimmtubekkingar 2019 heimsóttu uppsjávarvinnsluna um þetta leyti í fyrra og stúderuðu loðnu en fræddust líka um veiðar og vinnslu þorsks, ufsa og karfa.
Flest er breytt í tilverunni í ár vegna kórónuveirunnar. Þess vegna áttu loðnurannsóknir grunnskólanemanna sér nú stað á heimavelli, í skólastofunni.
- Helga Jóhanna Harðardóttir kennari tók myndirnar.