Fara á efnissvæði
World Map Background Image
Screenshot 2024 01 15 At 14.55.46 Til baka

9.55°C

ESE

11.32 m/s

„Við höfum leitað á Kap og Hugin að makríl sunnan við Eyjar og þaðan til austurs og vesturs en sjáum ekkert nema nokkurt átulíf. Sjórinn er frekar kaldur, átta til níu gráður við yfirborðið. Makrílinn er ofboðslega dreifður þegar hann kemur upp að landinu og erfitt að sjá hann. Við erum líka snemma á ferðinni en sjáum hvað setur þegar kemur fram í júní. Sjórinn mætti vera hlýrri og svo þurfum við sól og gott veður á miðunum.“

Jón Atli Gunnarsson, skipstjóri á Kap VE, var staddur suðaustur af Vestmannaeyjum fyrir hádegið og Huginn VE á sama tíma talsvert lengra í suður frá Eyjum. Skipin hafa leitað makríls undanfarna daga en sá góði fiskur lætur ekki sjá sig svo nokkru nemi.

„Bæði skipin köstuðu suður af Eyjum fyrr í vikunni til að strekkja trollin og stilla þau af. Við toguðum aðeins en í belginn kom ekki annað en áta. Við á Kap köstuðum aftur síðar,  við Öræfagrunnshornið, og náðum þá örfáum fiskum, reyndar stórum makríl - 420 til 500 grömmum að þyngd.“

Samanlagður makrílkvóti Vinnslustöðvarinnar og Hugins er um 24.000 tonn og vinnufúsar hendur í tugatali eru í biðstöðu eftir að vertíðin hefjist og vinnslan í landi fari í gang.

„Kap landaði fyrsta makríl vertíðarinnar í fyrra 11. júní, 200 tonnum. Við höfðum á tilfinningunni að hægt hefði verið að byrja veiðar fyrr þá. Þess vegna vildum við kanna ástandið á miðunum strax fyrir sjómannadaginn í ár,“ segir Sindri Viðarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs VSV.

 

Makrílleitin er í kristilegum anda Mattheusarguðspjalls sem allt eins víst er að vitnað verði til í sjómannamessunni í Landakirkju á sunnudaginn kemur:

  • Biðjð og yður mun gefast, leitið og þér munið finna, knýið á, og fyrir yður mun upplokið verða.

Sá sem ekki leitar finnur auðvitað ekkert. Kemur dagur eftir þennan dag á makrílmiðum.