Fara á efnissvæði
World Map Background Image
2 Angelika Annahalldo R Til baka

9.55°C

ESE

11.32 m/s

Sala saltfisks frá Vestmannaeyjum í Portúgal tók kipp núna í mars sem staðfestir að margir þar í landi geta ekki hugsað sér páskahátíð án þess að hafa þessa góðu matvöru á veisluborðum! Portúgalir ganga engu að síður í gegnum verulegar þrengingar vegna kóvíd líkt og svo margar aðrar Evrópuþjóðir en framan af í faraldrinum var ástandið samt mun betra í Portúgal en í grannríkjum.

„Veirufaraldurinn lék Portúgali grátt í vetur og áhrifanna gætir alls staðar í þjóðlífinu, þar á meðal að sjálfsögðu líka á saltfiskmarkaðinum. Portúgal var lengri vel í miklu betri stöðu en til dæmis Spánn og flest önnur ríki á meginlandi Evrópu en á síðasta ársfjórðungi 2020 hallaði á ógæfuhliðina.

Í janúar og febrúar 2021 var veirufaraldurinn í Portúgal meira að segja orðinn svo skæður að ástandið var með því versta sem gerðist í heiminum og verra en til dæmis á Spáni. Þetta hefur eðlilega mikil áhrif á saltfisksöluna sem nú er að langmestu leyti í matvöruverslunum.“

Þannig segist Sverri Haraldssyni, sviðsstjóra botnfisksviðs VSV, frá. Hann fjallaði á dögunum um Portúgal og stöðuna þar á veffundi Íslandsstofu um markaði saltaðra fiskafurða í Suður-Evrópu. Umræðurnar tengdust verkefninu Seafood from Iceland.

Veirufaraldurinn geisar en er í rénun

Portúgalir upplifðu alvarlega efnahagskreppu framan af 21. öld með tilheyrandi falli landsframleiðslunnar. Saltfiskverðið lækkaði verulega og fyrir því fann Vinnslustöðin, fyrirtæki sem hefur sérhæft sig í framleiðslu saltfisks í samræmi við hefðir og matarvenjur í Portúgal. Vinnslustöðin tók efnahagsdýfuna með Portúgölum í ljósi þess að markaðurinn væri til lengri tíma verðmætur og mikilvægur. Fyrr en síðar myndi rofa til í efnahagsmálum og landið færi að rísa á ný.

Kaflaskilin urðu árið 2013 og efnahagsbatinn varð tiltölulega skjótur. Í öllum ársfjórðungum frá 2014 til og með 2019 jókst landsframleiðslan í landinu með aukinni velmegun almennings og aukinni bjartsýni.  

Svo brast á heimsfaraldur kóvíd og efnahagssamdrátturinn í Portúgal varð bæði skjótur og mikill eða um 7,6% á öllu árinu 2020. Þar vóg þyngst að erlendir ferðamenn létu ekki sjá sig, ferðaþjónustan fór á hliðina og atvinnuleysi snarjókst.

  • Afleiðingarnar eru meðal annars þær að verð á saltfiski í Portúgal hefur lækkað um 20-25% frá lokum vetrarvertíðar 2020 og óvissa ríkir um hvað gerist í nánustu framtíð.

Veirufaraldurinn geisar áfram en er nokkuð í rénun. Bólusetningar eru hafnar og hlutfall bólusettra er svipað og á Íslandi.

Síðast en ekki síst hangir yfir spurning um framboð á norskum fiski og hvernig það virkar á verðlagið. Norðmenn fengu auknar veiðiheimildir  fyrir þorsk í Barentshafi. Þeir veiða sem fyrr mikið á stuttum tíma á þessum tíma árs og setja á markað.

Grupeixe skiptir sköpum

„Við höfum sem fyrr sterk spil á hendi í harðri samkeppni. Íslenskur saltfiskur er þekktur fyrir gæði og neytendur eru meðvitaðir um að uppruninn tryggir að varan sé góð og eftirsóknarverð. Þetta skapar okkur sérstöðu sem skýrir að íslenski saltfiskurinn er dýrari vara á Portúgalsmarkaði en sá norski,“ segir Sverrir.

„Það sem breytir stöðu okkar hjá Vinnslustöðinni verulega í glímunni við erfiðleika á þessum markaði nú er að við eigum Grupeixe, framleiðslu-, dreifingar- og sölufyrirtæki fyrir saltfisk í borginni Aveiro í norðurhluta Portúgals. Það ræður úrslitum um að geta haldið viðskiptum og framleiðslu gangandi því við erum sjálf þátttakendur á markaðnum, höfum sölu- og dreifingargetu, geymum vöruna eða stýrum flæði hennar inn á markaðinn í beinum og milliliðalausum samskiptum við smásalana. Portúgal er í þeim skilningi heimamarkaður Vinnslustöðvarinnar, sem styrkir okkur í samkeppninni og til að þreyja þorrann og góuna með Portúgölum í gegnum samdráttarskeiðið.

Salan hjá okkur var að nálgast hápunkt vegna jólahátíðarinnar þegar staðfestum smitum snarfjölgaði í Portúgal. Þá þegar hafði veitingahúsum verið settar skorður og þau voru ekki opin eins og ella hefði verið. Saltfisksalan gekk að vísu vel en var að langmestu leyti bundin við smásölumarkaðinn.

Spurningarnar stóru eru: Hvað gerist næst, hvernig og hvenær? Portúgalar hafa ekki náð tökum á faraldrinum og áhrifa bólusetningar gætir lítið, enn sem komið er. Veiran grasserar og náði líka inn í fyrirtækið okkar Grupeixe þar sem þrír af hverjum fjórum starfsmanna veiktust misjafnlega mikið. Starfsemin lá niðri um hríð en er komin aftur í gang.

Veitingastaðir bregðast við ástandinu með heimsendingum matar, Allir reyna að bjarga sér einhvern veginn. Neytendur breyta líka háttum sínum og spurning er hvort sú breyting verði varanleg að einhverju leyti.

Matarmörkuðum var flestum lokað enda gróðrarstíur fyrir smit. Nú hafa menn tekið til við að útfæra þetta viðskiptaform í breyttri mynd, utan dyra með bil á milli söluborða og sölubása og takmarkaðan fjölda seljenda og viðskiptavina.“

Vonir standa til að botni verði náð 2021

Hvernig líta heimamenn í Portúgal á stöðu og horfur?

Við slógum á þráð til Nuno Araújo framkvæmdastjóra Grupeixe:

„Árið 2021 verður erfitt en við vonumst til að botninum verði náð og efnahagsástandið byrji að skána fljótlega á nýju ári. Núna er staðan sú að hvers kyns samkomur fólks eru bannaðar. Skólar, veitingahús, leikhús til til að mynda lokuð að minnsta kosti fram yfir páska og stórfjölskyldur fá ekki að hittast til að borða saman. Við getum einungis selt fisk í matvöruverslunum og fólk eldar og borðar heima hjá sér. Veislur vegna brúðkaups, stórmæla eða annarra viðburða eru ekki leyfðar og þar voru oftar en ekki saltfiskréttir á borðum.

Portúgalar láta samkomutakmarkanir yfir sig ganga hljóðalaust. Á Spáni er meiri óróleiki í samfélaginu og þar við bætist sjálfstæðisbarátta í Katalóníu. Við erum stilltari og hlýðnari þjóð en Spánverjar og Frakkar!

Mörg fyrirtæki hafa orðið gjaldþrota hérna en reynt er að halda öðrum gangandi með ríkisaðstoð. Þegar þeim ráðstöfunum lýkur blasa miklir erfiðleikar þessum fyrirtækjum.

Þá bíða Portúgalar eftir aðstoð frá Evrópusambandinu en við vitum hvorki hvenær hún berst né hvers eðlis hún verður. Líklegt er að þar kom til styrkir vegna nýfjárfestinga frekar en stuðningur við fyrirtæki í rekstrarerfiðleikum.“

  • Hér fyrir neðan eru Sverrir Haraldsson (efsta mynd); Angelika, Anna og Halldór í vinnslusalnum; Sverrir og Óðinn Kristjánsson; Luis Paiva; Jakob Möller og Sverrir. 
1 Sverrir
2 Angelika Annahalldo R (1)
3 Sverrir Og O Dinn Kristja Nsson
4 Luis Paiva
5 Jakob Mo Ller Og Sverrir