Eyjar löðuðu og lokkuðu Guðbjörgu til sín
„Ég hugsaði oft um að flytja til Vestmannaeyja og mig langaði virkilega til að eiga þar heima. Staðurinn var fallegur og þar leið mér vel í heimsóknum til ættingja. Reynslan staðfestir þá tilfinningu. Eitthvað við Eyjar fangar mig og heldur mér.“
Guðbjörg Guðjónsdóttir bjó fyrir sunnan en á ættir að rekja til Vestmannaeyja. Faðir hennar var fæddur Eyjamaður og í henni blunduðu því Eyjagen sem ákváðu að láta hana vita rækilega af sér á unglingsárunum.
Atburðarásin var sem skrifuð í skýin. Guðbjörg alin upp í Fíladelfíusöfnuðinum í Reykjavík, Guðni Hjálmarsson trésmiður starfandi í Betel í Vestmannaeyjum. Þau kynntust á unglingamóti Hvítasunnukirkjunnar í Kirkjulækjarkoti og framtíðin var þar með ráðin. Þegar Guðbjörg var nítján ára gömul flutti hún til Eyja, þau Guðni gengu strax í hjónaband, keyptu hús og fóru að búa. Enginn hægagangur á hlutunum.
„Ég kunni strax vel við mig en viðurkenni alveg að fyrsta árið var dálítið erfitt, enda mikil breyting að fara frá foreldrum sínum og vinum í Reykjavík. Fljótlega fór ég að líta á mig sem heimamann og núna, bráðum 28 árum síðar, get ég hvergi annars staðar hugsað mér að búa.
Tengdafaðir minn sagði einu sinni: Guðbjörg, þá fyrst áttar þú þig á því að þú sért Eyjamaður þegar þú gengur í gegnum kirkjugarðinn okkar og vilt láta jarðsetja þig þar! Þessi orð hans rifjuðust upp fyrir mér síðar þegar ég átti leið hjá kirkjugarðinum á heimleið. Já, hér vil ég hvíla, hugsaði ég. Þar með hlaut ég að vera orðinn sannfærður og ekta Vestmannaeyingur!
Eyjarnar höfðu áhrif á mig strax. Ég man eftir heimsókn hingað með Herjólfi. Í innsiglingunni virti ég Heimaklett fyrir mér, þennan tignarlega og trausta klett sem veitti ákveðna öryggistilfinningu. Nokkrum árum seinna fór ég niður að höfn til að ná í manninn minn sem var að finna í björgunarfélagsskýlinu þar. Þá horfði ég á Heimaklett og upplifði alveg sömu notalegu tilfinninguna og um borð í Herjólfi forðum.“
Guðbjörg útskrifaðist úr Verslunarskóla Íslands og hafði unnið í sumarafleysingum í Landsbankanum í Reykjavík. Hún fór að skyggnast um eftir starfi í Vestmannaeyjum, var tekinn í viðtal í Íslandsbanka og fékk vinnu sem gjaldkerfi en var líka í erlendri innheimtu, ábyrgðum og fleiru tilfallandi.
Í Íslandsbanka unnu líka Binni og Andrea (framkvæmdastjóri og fjármálastjóri Vinnslustöðvarinnar) sem síðar urðu líka samstarfsfólk í VSV.
Á árinu 2003 hafði Binni samband við Guðbjörgu og bauð henni starf sem hún þáði.
„Einn af þáverandi yfirmönnum Vinnslustöðvarinnar sagði við mig að ég yrði að gera mér grein fyrir því að sjávarútvegurinn væri óstöðug atvinnugrein. Því yrði ég að búa mig undir að fyrirtækið tæki dýfu og segja þyrfti upp fólki.
Þá það, hugsaði ég. Ef ég verð rekin dríf ég mig í háskólanám! En hér er ég, hef ekki verið rekin og háskólinn bíður. Stundum hvarflaði samt að mér að skrá mig í fjarnám í háskóla en af því varð aldrei, ég hafði einfaldlega nóg annað fyrir stafni og hef enn.“
Guðni Hjálmarsson tók við sem forstöðumaður Hvítasunnukirkjunnar árið 2008. Hann starfar við smíðar fyrstu þrjá virka daga vikunnar en gegnir embættisstörfum á safnaðarskrifstofunni á fimmtudögum og föstudögum. Guðbjörg tekur þátt í safnaðarstarfinu með eiginmanninum, það er stór hluti af lífinu. Börnin eru þrjú, tvö í Reykjavík en það yngsta, dóttir, fór núna í ársbyrjun alla leið til Ástralíu í biblíuskóla með áherslu á tónlistarnám.
„Mér líður afskaplega vel í Vestmannaeyjum, er mjög ánægð með starfið mitt og Vinnslustöðina sem vinnustað. Ég var í launamálum til að byrja með, leysti af sem gjaldkeri þegar þess þurfti en er núna í útflutningsmálum fyrirtækisins. Það er virkilega gefandi að sýsla með útflutningspappíra, trúðu mér!“