Ertu öruggur um borð?
Vinnslustöðin, FISK Seafood og VÍS hafa hrundið af stokkum átaksverkefni sem ætlað er að beina kastljósum að öryggismálum á skipum fyrirtækjanna og skerpa á vitund og árvekni skipverja í þeim efnum. Verkefnið hófst mánudaginn 10. maí og stendur yfir í fimm vikur.
Kallað er eftir því að hver og einn skipverji skrái í sérstakt atvikaskráningakerfi ábendingar um hættur á vinnusvæðum, hvað betur megi fara og hvernig.
Athygli beinist að tilteknu svæði í skipunum í hverri viku átaksins. Í fyrstu vikunni er það þilfarið, í þeirri næstu vinnsludekk og síðan koma lestir og vélarrúm, vistarverur sjómanna og koma/brottför.
Skipverjarnir skrá athugasemdir og ábendingar í snjalltækin sín og þær berast skipstjórnendum og öryggismálafulltrúum fyrirtækjanna.
Gert er ráð fyrir að brugðist sé við sumum athugasemdum strax ef svo ber undir en að aðrar hugmyndir um úrbætur kalli á meiri undirbúning.
Í stýrihópi verkefnisins eru Gísli Níls Einarsson, sérfræðingur í forvörnum hjá VÍS, Lilja Björg Arngrímsdóttir, lögfræðingur og yfirmaður starfsmannamála Vinnslustöðvarinnar, og Stefanía Inga Sigurðardóttir, gæða- og öryggisstjóri hjá FISK. Ávarpi í dreifiriti hópsins til skipverja um málið lýkur eftir eftirfarandi orðum.
Vinnslustöðinni og FISK er umhugað um heilsu og öryggi starfsmanna sinna. Gerum skipið að slysalausum vinnustað þannig að allir komi heilir heim að veiðiferð lokinni.
Til að ná þeim markmiðum að gera skipið að slysalausum vinnustað þurfa stjórnendur og skipverjar að sýna forystu og setja öryggis- og vinnuverndarmál í forgang.
Taktu virkan þátt í forvarnarstarfi og mundu að glöggt er gests augað.
Nauðsynlegt að halda öryggismálaumræðunni vakandi
„Gísla Níls, forvarnasérfræðingi hjá VÍS, er annt um forvarnir og öryggismál til sjós og hann hefur áður verið okkur innan handar í þeim efnum. Frumkvæðið að verkefninu nú er frá honum komið og VÍS leggur til skráningarkerfið þar sem menn geta lagt inn athugasemdir nafnlaust eða undir nafni. Það sem skráð er á Vinnslustöðvarskipunum fer ekki fyrir annarra augu en mín og skipstjórnarmanna okkar og sama fyrirkomulag er hjá FISK. VÍS hefur ekki aðgang að þessum upplýsingum. Reglum um persónuvernd er fylgt,“ segir Lilja Björg Arngrímsdóttir.
„Samstarfið við FISK á reyndar ekki rætur í því að félagið er hluthafi í Vinnslustöðinni heldur er skýringin sú að VÍS er tryggingafélag beggja fyrirtækja og FISK er framarlega í flokki í öryggismálum. Það er mikill kraftur í Stefaníu Ingu, gæða- og öryggisstjóra FISK og fyrir okkur er mjög lærdómsríkt að kynnast því sem hún og samstarfsfólk hennar gerir. Samflot VÍS, VSV og FISK er gagnlegt fyrir alla sem að þessu koma.“