Brottrekinn Skagfirðingur í Kleifafrosti
„Ég kom fyrst til Vestmannaeyja á vertíð 1989 og heillaðist strax af staðnum. Hér gott að búa og þegar ég náði mér í Eyjadömuna Ölmu Eðvaldsdóttur var ekki aftur snúið. Annars er ég fæddur og uppalinn á Sauðárkróki en tel mig vera brottrækan Skagfirðing af því ég er hvorki hestamaður né söngmaður!“
Friðrik Stefánsson starfar í Kleifafrosti, glæsilegri frystigeymslu sem Hafnareyri, dótturfélag Vinnslustöðvarinnar, rekur á Eiði og er þar næstráðandi. Annars eru menn ekki uppteknir af titlum og goggunarröð þar á bæ.
„Ef yfirmaðurinn minn, Binni Kalli (Brynjar Karl Óskarsson), bregður af bæ sest ég í stólinn hans. Annars göngum við allir starfsmennirnir í öll verk. Ég er á lyftara eða vörubíl og sinni annars öðru því sem sinna þarf hverju sinni.
Þegar vertíð er í fullum gangi vinnum við allan sólarhringinn á tólf tíma vöktum og frystum síld, makríl, loðnu, hrogn eða fisk úr bolfiskvinnslunni. Vertíðarstemningu vildum við gjarnan að loðnan skapaði í ár líka en það gerðist bara ekki.“
Friðrik var lengst af til sjós. Hann byrjaði á rækjuveiðum með Andvara VE á Flæmska hattinum en fylgdi svo Pétri Sveinssyni skipstjóra yfir á Maríu Pétursdóttur VE og var þar í mörg ár sem vélstjóri og stýrimaður. Pétur og bróðir hans keyptu Maríu og gerðu út.
„Eftir Maríu Pétursdóttur var ég á Ísleifi gamla, rétt áður en Vinnslustöðin keypti skipið. Þá slasaði ég mig og ákvað að þá væri nóg komið, hætti á sjónum og fór í land.“
Friðrik sneri sem sagt við blaðinu og tók þátt í að stofna ferðaþjónustufyrirtækið Ribasafari sem á og rekur harðbotna slöngubáta til skoðunarferða við Eyjar.
„Þetta átti að vera aukabúgrein en varð fljótlega aðalstarf og mikil vinna. Við seldum síðan fyrirtækið og ég fór til Vinnslustöðvarinnar sem flokksstjóri í uppsjávarvinnslu og frystiklefa. Þegar frystigeymslan reis á Eiðinu varð hún vinnustaðurinn minn og er enn.
Ég á móður og systur í Skagafirði og bróður í Bolungarvík. Tvisvar á ári að jafnaði skrepp ég norður en sjaldnar vestur. Samgöngur milli lands og Eyja trufla mig lítið, enda heimakær og í Eyjum líður mér best.
Nefni samt að ég er svekktur með nýju ferjuna. Ganghraði hennar er bara 14 mílur en ég hefði kosið að hafa hann 34 mílur. Við þurfum hraðskreiða ferju til að stytta siglingartíma til Þorlákshafnar verulega.“
Bíllinn sem Friðrik ekur á um götur í Vestmannaeyjum er kapítuli út af fyrir sig eða öllu heldur skreytingin bílnum. Öðrum megin er teikning af Chuck Norris, bandaríska kvikmyndaframleiðandanum og hasarmyndahetjunni. Hinum megin er nafn kappans skráð. Ferðamenn reka upp stór augu og fyrir hefur komið að bíleigandinn hafi fengið tilboð á staðnum í gripinn en það er gagnslaust. Norris-bíllinn er ekki falur.