Breki VE fiskaði nær 7.800 tonn á fyrsta útgerðarárinu sínu
Breki VE fór í fyrsta sinn til veiða frá Vestmannaeyjum 24. júlí 2018, fyrir nákvæmlega einu ári. Áhöfnin og togarinn héldu upp á ársafmælið með því að koma til hafnar í morgun með fullfermi, enn einu sinni.
Það sætir nefnilega vart tíðindum lengur að Breki komi með minna en lestarfylli af fiski úr veiðiferðum sem eru yfirleitt þrír til sex dagar.
-
Á þessu fyrsta ári hefur Breki fiskað tæplega 7.800 tonn. Aflaverðmætið er liðlega 1,5 milljarðar króna. Uppistaðan í aflanum er þorskur, ýsa, ufsi og karfi.
„Við blasir að Breki fer yfir 8.000 tonna markið á fiskveiðiárinu. Útgerð skipsins er afar farsæl og mjög hagkvæm. Skipið var hannað með mun stærri skrúfu en gengur og gerist. Hönnuðir töluðu um að þannig mætti fá mun meira afl með mun minni orku, jafnvel svo að olíunotkun minnkaði um tugi prósenta. Þetta hefur gengið eftir en ég ætla að bíða með að nefna tölur þar að lútandi fyrr en eftir að hafa kannað málið betur að fiskiveiðiárinu loknu,“ segir Sigurgeir B. Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar.
Togararnir Breki VE og Páll Pálsson ÍS eru systurskip, smíðuð í Kína á sama tíma og fylgdust að á heimleið í fyrrasumar.
Hraðfrystihúsið Gunnvör í Hnífsdal gerir Pál út og framkvæmdastjórinn, Einar Valur Kristjánsson, er ekki síður lukkulegur með sitt skip en kollegi hans í Eyjum með Breka.
„Páll Pálsson fór í fyrstu veiðiferðina 7. júlí 2018. Útgerðin gengur vel og við erum ánægð með skipið. Allt hefur raunar gengið eftir sem við reiknuðum með. Hið eina sem miður fór var lengri smíðatími í Kína en um var samið en það heyrir sögunni til.
Mér er reyndar mjög ofarlega í huga hve árangursríkt og gott samstarf tókst með Hraðfrystihúsinu Gunnvöru og Vinnslustöðinni strax í upphafi þess að ákveðið var að kanna forsendur fyrir smíði togaranna tveggja samtímis í Kína. Samvinnan skilaði fyrirtækjunum verulegum ávinningi og er bæði merkileg og lærdómsrík.“