Bragðbesta íslenska loðnan nokkru sinni!
„Margir kaupendur og neytendur loðnuafurða í Japan hafa sagt mér að loðan á vertíðinni 2017 hafi verið sú bragðbesta frá Íslandi í manna minnum. Sumir hafa samanburð í samfleytt 25 ár og vita hvað þeir tala um,“ segir Yohei Kitayama, japanskur sölumaður About fish, sölu- og markaðsfyrirtækis Vinnslustöðvarinnar.
Yohei Kitayama með markaðssjónaukann kláran!
„Nú bíða viðskiptavinir okkar í Japan spenntir eftir loðnunni sem veiðist í ár og auðvitað er alltaf heldur þægileg tilfinning að vita af eftirvæntingarfullum kúnnum! Fyrsta loðnan sem barst til Eyja með Ísleifi VE á dögunum lofar góðu. Ég hef á tilfinningunni að vertíðin 2018 skili okkur ágætri vöru og viðunandi verði.
Útlitið á þessum tíma árs í fyrra var hrikalegt en úr rættist heldur betur, þökk sé útgerðarfyrirtækjum sem sendu skip sín til loðnuleitar á eigin kostnað eftir að fiskifræðingar íslenska ríkisins sögðu að enga loðnu væri að finna og aflýstu vertíðinni að mestu.
Staðan var grafalvarleg og loðnuleysi hefði að óbreyttu sett fjölda lítilla japanska fjölskyldufyrirtækja í vinnslu og sölu loðnuafurða á hausinn. Þá hefðu tapast viðskipti og viðskiptavinir til frambúðar, sama hve vertíðin 2018 hefði verið góð og gjöful. Eftir allt saman fengum við sem betur fór loðnuvertíð á Íslandi og hún skilaði svona líka góðum afurðum.
Íslendingar framleiddu meira í fyrra en búist var við. Því eru til nokkrar birgðir loðnuafurða í Japan sem gætu haft einhver áhrif á verðlagið nú en ég efast samt um það. Þar kemur tvennt til:
Aflamark í loðnu 2018 er minna en gert var ráð fyrir sem takmarkar að sjálfsögðu framboðið.
Eftirspurn/neysla í Japan var umfram það sem við reiknuðum með fyrir hálfu ári, aðallega vegna þess að loðnan var óvenjulega stór og góð.
Stærðin skiptir máli! Í fyrra voru að jafnaði 40-50 stykki í kílógrammi en venjulega 50-60. Veitingamenn kunna vel að meta að geta selt færri en stærri fiskstykki í matarskömmtum viðskiptavinarins. Svona nokkuð telur.“
Loðnuvertíðin og afurðasalan í kjölfarið leggst þannig vel í Kitayama en hann neitar sér samt ekki um að kæla ögn væntingar með því að slá varnagla. Norskan varnagla.
„Noregur er hér óvissuþáttur, eins og svo oft gerist á mörkuðum með sjávarafurðir. Ef Norðmenn veiða stóra og góða loðnu hefur það örugglega áhrif á verðlagið hjá okkur. Við höfum hins vegar ákveðið forskot sem er um að gera að nýta.
Japanskir viðskiptavinir okkar vita að veiðarnar eru komnar í gang hér og að þokkalegar horfur eru með loðnuafurðirnar frá Íslandi. Þeir eru óþreyjufullir að fá loðnu ársins og bíða helst ekki eftir veiðum Norðmanna.
Við eigum leik í þeirri stöðu.“
Kitayama tekur prufur úr loðnu úr Ísleifi VE, þeirri fyrstu sem barst til Eyja á vertíðinni 2018.