Böndin treyst með bros á vör í Barcelona
„Upp úr stóð hve fegið og ánægt fólk í þessum geira atvinnulífs um víða veröld var að geta hist á ný, skrafað saman augliti til auglitis og borið saman bækur sínar. Menn voru fyrst og fremst svo glaðir yfir því að sjá aftur framan í viðskiptavinina og aðra enda er fjarfundaþreyta eftir COVID mikil og yfirgnæfandi. Engin fjarskiptatækni kemur í stað persónulegra tengsla. Við hittum þarna fjölda viðskiptavina okkar á einum stað og sýningin telst því afskaplega vel heppnuð,“ segir Benoný Þórisson, framleiðslustjóri á uppsjávarsviði VSV, um sjávarútvegssýninguna miklu í Barcelona á dögunum, Seafood Expo Global/Seafood Processing Global.
Sýnendur voru 1.530 frá hátt í 80 ríkjum. Íslandsstofa áætlaði að um 750 Íslendingar hefðu tekið þátt í samkomunni sem sýnendur og gestir.
Sýningarhaldið hefur fram til þessa verið í Brussel en viðburðurinn í ár, nr. 28 frá upphafi 1994, var nú í fyrsta sinn í Barcelona á Spáni. Annars vegar voru sýndar sjávarafurðir en hins vegar tækni og þjónusta í sjávarútvegi og fyrir sjávarútveginn.
Björn Matthíasson, framkvæmdastjóri VSV Seafood Iceland, sölufyrirtækis Vinnslustöðvarinnar, er ánægður með bæði sýninguna og árangurinn:
„Við skynjuðum vel að mun betur fór um sýninguna í Barcelona nú en var áður í Brussel. Tilheyrandi innviðir á Spáni, svo sem sýningarhallir og sýningarsvæði utan dyra, hótel, samgöngukerfi og veitingastaðir, tóku betur við öllu þessu umfangi og mannfjöldanum sem sýndi eða sótti sýninguna.
Frá okkar bæjardyrum er hægt að segja að árangurinn hafi verið í samræmi við væntingar og meira en það. Allan tímann var rennerí og mikið um að vera í sýningarbás Vinnslustöðvarinnar.
Alltaf myndast ný sambönd og jafnvel viðskiptatengsl en fyrst og fremst lítum við á svona sýningu sem vettvang til að hitta viðskiptavini okkar, ræða málin og treysta böndin á milli okkar.“