Binni tvítugur (í starfi)
Samstarfsfólk á skrifstofu Vinnslustöðvarinnar bar í dag þessa líka fínu súkkulaðiköku á borð í tilefni af tvítugsafmæli framkvæmdastjórans, Sigurgeirs Brynjars – Binna, í starfi. Hann tók við framkvæmdastjórninni fyrir páska 1999 og man tímana tvenna í fyrirtækinu.
Binni gerðist framkvæmdastjóri á afar erfiðum og tvísýnum tímum í fyrirtækinu. Vinnslustöðin var svo gott sem á hliðinni, í bullandi taprekstri. Fjöldauppsagnir starfsfólks voru á verkefnaskránni á fyrstu vikum hans í stóli framkvæmdastjóra. Hann taldi óhjákvæmilegt að ganga strax hreint til verks og byggja svo upp á nýjan leik í markvissum skrefum. Það var meira en að segja'ða en hver hefði trúað því þá að Vinnslustöðin yrði tveimur áratugum síðar það sem hún er. Fáir, kannski enginn. Ekki einu sinni Binni sjálfur.
Það segir nokkuð um karakterinn að hann er útskrifaður búfræðingur frá Bændaskólanum á Hvanneyri með meistarapróf í fjármálum og fjárfestingum frá háskóla í York á Englandi. Hann hefur reynslu af sjómennsku og fiskverkun en innst inni er hann bóndi og bregður oft upp líkingum úr landbúnaði þegar hann vill útskýra eitthvað í sjávarútvegi á mannamáli. Þá er betra að áheyrendur hafi gripsvit á búskap til að skilja boðskapinn til fulls.
Binni kom allra fyrst til Eyja beint úr námi og fór að vinna sem lánasérfræðingur í Íslandsbankaútibúinu hér. Þá kynntist hann auðvitað sjávarútvegsfyrirtækjunum og vandræðum sem þau voru mörg hver í. Sjávarútvegurinn var oft í fréttum vegna taprekstrar og vesens en samt laðaðist Binni að greininni og var ráðinn aðstoðarforstjóri Vinnslustöðvarinnar með aðsetur í Þorlákshöfn eftir að Meitillinn hf. var sameinaður VSV. Fyrirtækið var með rekstur á báðum stöðum. Þegar hann varð framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar 1999 var einn liður björgunaraðgerða að hætta rekstri í Þorlákshöfn. Það gekk ekki hljóðlaust fyrir sig.
Nú stefnir í að þessi skrif hljómi sem minningargrein en slíkt er aldeilis ótímabært með öllu. Rétt er því að að enda á öðrum nótum.
Í tilefni dagsins er við hæfi að vísa í Viðskiptablaðið frá því árið 2005. Þar var dregin upp svipmynd af framkvæmdastjóra Vinnslustöðvarinnar. Þeir sem þekkja Binna finna hér mörg sannleikskorn. Þeir sem þekkja manninn ekki kynnast honum umtalsvert við lesturinn!
„Sigurgeiri Brynjari er lýst sem traustum og hæfum stjórnanda. Hann gangi hreint og beint til verks, skoði málin vel og flani ekki að neinu.
„Binni er klár dugnaðarforkur sem klárar sín verk skilmerkilega,“ sagði samferðamaður hans til margra ára. Annar sagði til fyrirmyndar hvernig hann stjórnaði Vinnslustöðinni. Jafnframt er hann sagður reyndur í sínu fagi og hann standi fast við skoðanir sínar án þess þó að vera einstrengingslegur.
„Hann er búfræðingur og hagfræðingur, alinn upp á Arnarstapa og greinilega vel uppalinn - vanur að nýta það sem hann hefur í höndunum,“ sagði einhver. Sjálfur segir Sigurgeir ekki víst að hann sé svo vel uppalinn og hlakkar í honum: „Snæfellsbörn hafa orð á sér fyrir að vera sérlega illa uppalin, kjaftfor og orðljót!“
Samferðamenn Sigurgeirs til sjós og lands telja hann þægilegan í umgengi. „Hann er þó ófeiminn við að segja sínar skoðanir og vinna eftir þeim. Það þola það ekki allir,“ tiltók einn viðmælenda. Menn áttu erfitt með að nefna galla á manninum, hann væri jú gleyminn, ef það teldist til galla.
Einhver sagði: „Hans helsti galli er að hann er framsóknarmaður.“ Sigurgeir telur þetta vísa til þess að hann kalli sjálfan sig útlærðan framsóknarmann frá Bifröst.
Góður drengur, léttur og skemmtilegur, mjög opinn og lítur ekki stórt á sig, duglegur vinnuþjarkur, beittur og ákveðinn er meðal lýsinga sem fengust á Sigurgeiri. Og síðast en ekki síst sé hann mikill sögumaður. Kunni margar sögur og segi ákaflega vel frá.
„Hann hefur til dæmis mjög gaman af að segja sögur af skrautlegum karakterum af Stapanum og Snæfellsnesinu - sumum hverjum alveg stórfurðulegum.““