Fara á efnissvæði
World Map Background Image
Screenshot 2024 01 23 At 10.22.05 Til baka

9.55°C

ESE

11.32 m/s

Árshátíð Vinnslustöðvarinnar laugardagskvöldið 20. október tókst afskaplega vel. Starfsmenn og aðrir gestir voru reyndar sammála um að þessa samkomu yrði erfitt að toppa!

Hér birtist úrval sjálfsmynda sem gestir tóku af sér í sérstöku „sjálfuboxi“ á vettvangi, sumir misstu sig nánast í fettum og brettum en við hlaupum að mestu yfir þær myndir af skiljanlegum ástæðum!

Friðrik Ómar og Jógvan voru veislustjórar kvöldsins og fóru á kostum. Eyþór Ingi og Jóhanna Guðrún lögðu þeim svo lið við sönginn. Hvergi var því slegið af með úrval skemmtikrafta í landsliðsflokki.

Þá skal getið tveggja ungra og bráðefnilegra söngvara í Eyjum sem stigu á stokk á meðan borðhald stóð yfir og slógu einfaldlega í gegn. Þetta voru annars vegar Bríet Ósk Magnúsdóttir, sex ára, dóttir Esterar Óskarsdóttur, viðskiptafræðings á skrifstofu VSV, og Magnúsar Stefánssonar, og hins vegar Árni Þór Ingólfsson, tólf ára sonur Ingólfs Ingvarssonar, matsveins á Breka VE, og Snjólaugar Árnadóttur.

Ótalinn er þá José Gandra, starfsmaður VSV Portugal. Hann spilaði á gítar og söng fallegt lag á portúgölsku.

Skemmtikraftarnir voru því bæði aðkomnir og heimafengnir, missjóaðir í bransanum og á ýmsum aldri!

Veislumaturinn hjá Einsa kalda var að sjálfsögðu lofsunginn í salnum, eins og fyrri daginn. Þar á bæ klikka menn aldrei. Veitingafólkið hefur þar að auki náð lygilegum hraða og öryggi í framreiðslu á stórsamkomu á borð við árshátíð VSV.

Salurinn var fallega skreyttur, stemmingin sérlega góð og allir sneru glaðir til síns heima um nóttina. Sumir ögn seinna en aðrir en það er bara eðlilegur hluti tilverunnar á svona gleðistundum!