Aðventan hafin hjá Ingigerði jólasíldardrottningu
Síldaraðventan er hafin í Vinnslustöðinni.
Niðurtalning til jóla hefst hjá venjulegu fólki fjórum vikum áður en klukkur hringja inn hátíðina. Aðventan gengur hins vegar í garð strax í október hjá Ingigerði Helgadóttur flokksstjóra í uppsjávarvinnslunni. Þá hefst nefnilega framleiðsluferli hinnar ómissandi jólasíldar VSV með tilheyrandi gleði hjá þeim sem skipa síldarhópinn í fyrirtækinu og spenningi hjá þeim sem fá að njóta afurðanna þegar þar að kemur.
Aðdáendum jólasíldarinnar fjölgar ár frá ári og eftirspurnin í samræmi við það. Fyrir jólin 2020 voru síldarbitar verkaðir í sjö körum, í fyrra í átta körum og í ár í níu körum.
Aukningin nemur þannig einu kari á ári og nú eru verkuð alls 2,8 tonn, takk fyrir.
Ingigerður lýsir ferlinu:
„Síldin er í edikspækli fyrstu vikurnar og við hrærum í kerjunum fjórum sinnum á sólarhring. Næstu skref eru að vigta síldina í fötur með sykurlegi, kryddblöndu, lárviðarlaufi og 800 kílóum af lauk.
Vandað er til verka, enginn skal efast um að við tökum ekki verkefnið alvarlega!
Þetta vatt líka upp á sig þegar framleiðendur jólasíldar hér og þar fóru að deila henni sitt á hvað.
Í fyrra efndum við í Vinnslustöðinni til blindsmökkunarkvölds og prófuðum síld úr ýmsum áttum sem barst okkur í skiptum fyrir sýnishorn af eigin framleiðslu, meðal annars frá Síldarvinnslunni, Ísfélaginu í Vestmannaeyjum og á Þórshöfn, Eskju og víðar að.
Síldin okkar stóð sig vel í samkeppninni, það er alveg á hreinu. Við látum ekki þar við sitja. Okkur er kappsmál að 2022-árgangurinn verði ekki síðri og helst betri en árangur jólasíldar VSV í fyrra.“
Svo sneri jólasíldardrottningin sér að því að hæra í kerjunum. Einu sinni enn.
- Benoný Þórisson tók myndirnar.