Makríll finnst víða í höfum heims, t.d. bæði í Atlantshafi og Kyrrahafi. Í Atlantshafi hrygnir hann frá maí til júní en eftir hrygningu fer hann í ætisgöngur norður eftir Atlantshafi. Um sumarið er hann í æti og fitnar og styrkist og fer síðan á haustin aftur í göngu til hrygningarstöðvanna.
Vinnslustöðin var með fyrstu útgerðum sem hófu veiðar á makríl við Ísland ásamt öðrum útgerðum frá Eyjum og Austfjörðum. Reynsla og þekking við makrílveiðar og vinnslu er því talsverð hjá starfsmönnum félagsins.
Makríllinn er blástursfrystur sem gerir hann auðveldari við frekari vinnslu þar sem fiskurinn pressast ekki eins og í plötufrystum. Neysla makríls er mismunandi eftir löndum. Sums staðar er hann heilgrillaður eða soðinn, annars staðar er hann flakaður og steiktur, marineraður eða reyktur.