Við veiðum þorsk allt árið um kring. Stærstur hluti aflans er veiddur á vetrarvertíðinni þegar þorskurinn gengur til hrygningar við suðvesturströnd Íslands. Þá eru gæði hans mest, fiskurinn er þéttur og stinnur. Þorskurinn hrygnir frá mars og fram í maí við suður- og vesturströndina en síðar fyrir Norðurlandi. Fiskurinn heldur sig á 100–250 metra dýpi.
Þorskur er mjög eftirsótt vara og vel þekktur meðal þjóða í Evrópu og Norður-Ameríku. Íslenskar fiskveiðar, þar á meðal veiðar Vinnslustöðvarinnar, hafa verið vottaðar af kröfuhörðum alþjóðlegum vottunaraðilum, s.s. Global Trust Certification.